Sigríður Björg Tómasdóttir, fréttastjóri á Fréttablaðinu, og Sunna Valgerðardóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, hafa sagt upp störfum.
Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, staðfestir þetta við mbl.is og á von á að þær komi ekki til starfa eftir sumarleyfi.
Sex starfsmönnum 365 miðla ehf. var sagt upp skömmu fyrir síðustu mánaðamót en þeirra á meðal voru fréttastjórarnir Trausti Hafliðason og Arndís Þorgeirsdóttir. Þau höfðu starfað hjá Fréttablaðinu um langt skeið, Trausti frá stofnun þess árið 2001 en Arndís frá 2005. Þá var Friðriki Indriðasyni fréttamanni sagt upp, tveimur ljósmyndurum og umbrotsmanni.
Þá voru Andri Ólafsson og Sigríður B. Tómasdóttir ráðin fréttastjórar á Fréttablaðinu en hún hefur nú sagt upp störfum. Sigríður stýrði innblaðsefni Fréttablaðsins áður og var fréttastjóri á Fréttablaðinu 2006-2007.
Breki Logason tók við starfi fréttastjóra Stöðvar 2 og Karen Kjartansdóttir varafréttastjóri. Kristján Már Unnarsson hætti sem fréttastjóri Stöðvar 2 við skipulagsbreytingar og verður fulltrúi ritstjóra.