Lokar hringnum um mánaðamótin

Guðni Páll Viktorsson.
Guðni Páll Viktorsson. Eggert Jóhannesson

„Það er með ólíkindum hvernig hann fer í gegnum þetta, það er alveg ótrúleg þrautseigja og dugnaður í honum,“ segir Sigurlaug Ragnarsdóttir, verkefnastjóri Styrktarfélags Samhjálpar, um Guðna Pál Viktorsson, sem fer brátt að loka hring sínum í kringum landið, en hann rær nú umhverfis Íslands til styrktar Samhjálp.

Guðni reri af stað þann 1. maí frá Höfn í Hornafirði, en ætlunin er að koma aftur í land á sama stað nú um mánaðamótin. Í morgun var hann staddur á Strandhöfn, rétt utan við Vopnafjörð.

Verkefnið hefur tekið töluvert lengri tíma en upphaflega var áætlað vegna slæmra veðurskilyrða. „Þetta hefur verið honum erfiðara en lagt var upp með. Þegar hann lýkur róðrinum er hann búinn að vera heilum mánuði lengur en upphaflega var áætlað. Hann er að taka frí úr vinnu og þetta setur því heilmikið strik í reikninginn,“ segir hún en bætir við að Össsur, vinnuveitandi hans, sé yndislegur vinnustaður og styðji hann heilshugar í förinni.

Reiknað er með að um sjö til átta róðrardagar séu eftir, en Sigurlaug segir að gera verði ráð fyrir tveimur til þremur dögum í veðrastopp. „Einu stoppin sem Guðni gerir eru veðrastopp. Hann rær í um átta til tólf klukkustundir á dag og fer þá kannski einu sinni til tvisvar upp á land til að borða.“ Þá segir hún að hann hafi stytt sér stundir með lestri og tónlist þegar hann hefur þurft að hverfa í land. 

„Vinnan bíður hans nú bara við heimkomu, hann á ekkert val og þarf bara að drífa sig þangað,“ segir Sigurlaug hlæjandi spurð hvað Guðni hlakki mest til að gera þegar í land er komið. „Ég held að hann sé annars bara spenntastur fyrir að hitta kærustuna og komast í frí með henni.“

Hér er hægt að fylgjast með ferðum Guðna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka