Alvarleg slys rakin til símanotkunar

Ljósmynd/Haltufókus

„Ég hef þá trú að skilaboðin séu það sterk að þau nái að skjóta rótum í huga þeirra sem á horfa. Það skiptir mestu máli,“ segir Einar Magnús Magnússon, kynningarstjóri Samgöngustofu, og vísar til nýs átaks sem Samgöngustofa og Síminn hafa hrundið af stað.

Átakið nefnist „Höldum fókus“ og er ætlað að vara ökumenn bifreiða við því að nota síma sinn á meðan á akstri stendur en fátt þykir hafa jafn truflandi áhrif við akstur og farsímanotkun.

Verkefnið fór af stað klukkan 9 í morgun og skömmu eftir klukkan 15 höfðu 28.753 kynnt sér það en verkefnið á sér stað nær eingöngu á samskiptamiðlinum Facebook.

Minnst tvö banaslys hér á landi

„Í Bandaríkjunum deyja fleiri ungmenni af völdum símanotkunar á þjóðvegum landsins en vegna ölvunar. Hér á landi virðast margir halda að engin alvarleg slys hafa orðið af völdum þessa en a.m.k. tvö banaslys eru rakin til þess að menn voru að tala í síma og senda sms-skilaboð,“ segir Einar Magnús

Aðspurður segir Einar Magnús hugmyndina koma frá framleiðslufyrirtækinu Tjarnargötu og var hún síðan útfærð í samvinnu við tæknimenn Símans.

Einar Magnús er að vonum ánægður með þá miklu athygli sem verkefnið hefur fengið til þessa og segir hann það í senn vera bæði nýstárlegt og óvenjulegt, sér í lagi vegna þess að Síminn er með þessu að hvetja viðskiptavini sína til að nota ekki þjónustu sína á meðan á akstri stendur.

Hægt er að kynna sér átakið Höldum fókus með því að smella hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert