Nemur reglugerð Ögmundar úr gildi

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. Eggert Jóhannesson

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, hefur fellt úr gildi reglugerð Ögmundar Jónassonar, fyrrum innanríkisráðherra, um breytt skilyrði fyrir fasteignakaupum útlendinga hér á landi. Ögmundur skrifaði undir reglugerðina skömmu áður en ný ríkisstjórn tók við í vor, þann 17. apríl.

Samkvæmt reglugerð Ögmundar var útlendingum með lögheimili á Evrópska efnahagssvæðinu óheimilt að eignast fasteignir á Íslandi, nema þeir hefðu hér fasta búsetur eða stunduðu atvinnu- eða þjónustustarfsemi hér á landi á grundvelli EES samningsins.

Fyrri reglugerð á gráu svæði

Hanna Birna tilkynnti nýju reglugerðina á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem hún lagði fram minnisblað um rétt útlendinga til að öðlast eignarrétt yfir fasteignum. Reglugerðin felur í sér að útlendingar frá Evrópska efnahagssvæðinu þurfa ekki lengur sérstakt leyfi til að eignast fasteign hér á landi, jafnvel þó að þeir hafi ekki fasta búsetu eða stundi atvinnu- eða þjónustustarfsemi hér á landi.

„Ég tel að sú reglugerð sem tók gildi í apríl síðastliðnum samræmist ekki þeim réttindum og skyldum sem við erum aðilar að í gegnum EES samninginn,“ sagði Hanna Birna í samtali við mbl.is. „Reglugerðin var á gráu svæði, enda njótum við íslendingar þeirra réttinda sem samningurinn veitir okkur vegna fasteignakaupa í öðrum löndum og getum þess vegna ekki undanskilið okkur þeim skyldum gagnvart íbúum annarra EES landa.“

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að innanríkisráðherra hyggist endurskoða reglur um rétt útlendinga til að öðlast eignarétt og afnotarétt enn frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert