Meirihluti Íslendinga telur þróun mála almennt vera í rétta átt á Íslandi samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir Evrópusambandið í maí síðastliðnum og birt í vikunni. Um er að ræða svokallaða Eurobarometer-könnun en slíkar kannanir eru gerðar reglulega fyrir ESB í ríkjum sambandsins sem og ríkjum sem sótt hafa um aðild að því.
Samkvæmt skoðanakönnuninni eru 71% Íslendinga á því að þróun mála hér á landi sé almennt séð í rétta átt. Tæpur fjórðungur, 22%, er á hinn bóginn á því að þróunin sé í ranga átt og 4% taka ekki afstöðu. Þeim sem telja að þróun mála sé að færast í rétta átt hefur fjölgað 14% frá síðustu könnun og þeim sem telja að þróunin sé í ranga átt fækkað um 12%. Íslendingar skera sig mjög úr í þessum efnum en meirihluti í 25 af þeim 33 ríkjum sem könnunin nær til telur þróunina innan þeirra vera í ranga átt, þar af 22 af 28 ríkjum ESB.
Þannig telja 80% Grikkja þróun mála vera í ranga átt í heimalandi sínu, 77% Spánverja, 75% Slóvena, 73% Portúgala, 71% Pólverja, 70% Frakka og 67% Króata. Hins vegar telja 57% Maltverja þróunina vera á réttri leið í heimalandi sínu, 49% Svía, 47% Tyrkja og 45% Finna. Að meðaltali innan ESB (að undanskildri Króatíu sem hafði ekki gengið formlega í sambandið þegar könnunin var gerð í maí) telja 25% þróun mála í heimalandi sínu í rétta átt en 56% í ranga átt.
Einnig var spurt hvort fólk teldi þróunina innan ESB á réttri eða rangri leið. Tæpur helmingur íbúa í ríkjum sambandsins, eða 49%, telur þróunina á rangri leið en 23% að hún sé á réttri leið. 43% Íslendinga telja þróunina innan ESB á rangri leið en 36% á réttri leið og þannig mun bjartsýnni á þróun mála þar á bæ en íbúar sambandsins. Íbúar 23 af 28 ríkjum ESB telja þróunina innan þess vera í ranga átt.