Hin árlega drusluganga verður haldin í þriðja sinn í Reykjavík á morgun. Lagt verður af stað frá Hallgrímskirkju klukkan 14 og gengið niður á Austurvöll. Aðstandendur göngunnar vilja með þessu vekja athygli á kynferðisbrotum og færa ábyrgðina frá þolendum til gerenda.
„Okkur finnst orðræðan í samfélaginu snúast allt of mikið um einhvers konar aðstæður í aðdraganda nauðgunar,“ segir María Rut Kristinsdóttir, talskona druslugöngunnar. „Þetta snýst ekkert um hvernig þú ert klæddur, hvort þú ert drukkinn eða hvernig þú hegðar þér; það er aldrei réttlætanlegt að nauðga eða misnota.“
„Við köllum eftir vitundarvakningu í samfélaginu gagnvart þess - að hver og einn einasti einstaklingur hugsi sig tvisvar um áður en hann hugsar út í það hvort að einstaklingurinn hafi verið léttklæddur eða fullur. Í stóra samhenginu skiptir það engu máli.“
María Rut segir gönguna hafa fengið mikinn meðbyr frá því hún var fyrst haldin árið 2011. „Fyrsta árið mættu 3000 manns og síðast mættu 5000, en mér finnst aðalávinningurinn vera hin mikla umfjöllun sem hefur verið og hvernig þetta er hætt að vera jafn mikið feimnismál og það var.“
„Fólk er að finna kjarkinn og stíga fram og það þykir mér vænst um; að fólk átti sig á því að þetta sé ekki einkamál sem það þurfi að burðast með eitt. Þegar einhver brýtur á manni á maður að segja frá því og standa beinn í baki.“
Uppruna druslugöngunnar segir María Rut mega rekja til Kanada. „Það var árið 2011 í kringum dómsmál vegna nauðgunar sem yfirmaður í lögreglunni lét þau orð falla að konur þyrftu að fara að hugsa sinn gang um hvernig þær væru klæddar svo þær lentu ekki í því að vera fórnarlömb. Þá var haldin drusluganga í Kanada sem breiddist út um heiminn.“
Druslugöngur verða einnig farnar á Akureyri og í Vestmannaeyjum.