Meindýraeyðirinn Steinar Smári Guðbergsson er með bráðaofnæmi fyrir stungum skordýra. Hann lætur ofnæmið ekki aftra sér í starfi og vílar ekki fyrir sér að eyða geitungabúum úti um allan bæ.
Steinar hefur samt vaðið fyrir neðan sig og geymir adrenalínsprautu í bílnum sínum ef til þess kæmi að hann yrði stunginn. Hann hefur ekki verið stunginn af geitungi hingað til þrátt fyrir 10 ára reynslu af meindýrabransanum.
„Mýfluga stakk mig fyrir nokkrum árum uppi í sveit og ég tútnaði allur út í kjölfarið. Ég leitaði til læknis og hann tilkynnti mér að það væru 99% líkur á að ég væri með bráðaofnæmi fyrir öllum skordýrastungum,“ segir Steinar en ekki er hægt að fullyrða með algerri vissu um afleiðingar af geitungastungu fyrr en stunga á sér stað.
„Læknirinn skrifaði upp á adrenalínsprautu fyrir mig þegar hann komst að því að ég starfaði sem meindýraeyðir.“ Steinar verður að sprauta sig með adrenalíni eins fljótt og auðið er ef geitunur stingur hann og hann hefur um 30 mínútna frest til að koma sér á spítala áður en ofnæmisviðbrögð brjótast út.
Geitungar valda oftast ofnæmi allra skordýra og ein stunga getur verið lífshættuleg fyrir þá sem eru með bráðaofnæmi. Bráðaofnæmi vegna geitunga eða býflugna er talið orsaka að minnsta kosti 50 dauðsföll árlega í Bandaríkjunum.
„Ég átti rollur og ég átti erfitt með að gefa þeim því það var svo mikið af kóngulóm í fjárhúsunum og ég var með mikla „fóbíu“ fyrir þeim.“