Villigæs í ólgusjó

Helga Þöll aðstoðar kærastann Arnar Inga við hárþvott.
Helga Þöll aðstoðar kærastann Arnar Inga við hárþvott. Ljósmynd/Svava Garðarsdóttir

Þó að sumir kjósi rólegheit í sínum frítíma, eru aðrir sem geta ekki staðist ævintýrin. Hjónin Svava Garðarsdóttir og Guðjón Snær Steindórsson, sem bæði eru kerfisfræðingar, eru mikið útivistar- og ævintýrafólk. Þau hafa alla tíð lagt ríka áherslu á að öll fjölskyldan sé saman og hafa ferðast víða með dæturm sínum. Í gegnum árin hafa þau stundað útivist af ýmsu tagi svo sem jeppaferðir, klettaklifur, skíði, hjólreiðar og fjallgöngur svo eitthvað sé nefnt.

Fundu skútu á Írlandi

Fyrir nokkrum árum fengu þau áhuga á skútusiglingum og fjárfestu í skútunni Yrsu, og það varð ekki aftur snúið. Síðastliðið sumar ákváðu þau að selja hana og fá sér stærri skútu sem þau myndu sigla heim frá útlöndum. „Þá bara upphófst leitin, það er enginn skútumarkaður hér á landi, þannig að við lögðumst á netið,“ segir Svava.

Upphaflega planið var að kaupa skútu í Miðjarðarhafinu og sigla henni heim í rólegheitum næstu tvö til þrjú sumur, en það reyndist of kostnaðarsamt. Þau fundu loks skútu á Írlandi sem þau festu kaup á, en aðalundirbúningurinn fólst í alls kyns pappírsvinnu, ástandsúttekt, tryggingarmálum, skráningum og að fá undanþágu fyrir gjaldeyri. „Það er alveg gríðarlega flókið að fara út í fjárfestingu af þessu tagi erlendis. Þetta tók allan veturinn,“ segir Svava.

Um páskana fór fjölskyldan út til Dublin til fundar við Villigæsina eins og hún var nefnd á íslensku. Skútan er 8 manna af gerðinni Beneteau Oceanis 351, hún er 35 fet (tæpir 11 metrar) og er með þrjár tveggja manna káetur auk svefnpláss fyrir tvo í miðrými. Þau bjuggu um borð og gerðu hana sjóklára en hún hafði staðið óhreyfð í mörg ár. Í sumar var svo haldið í leiðangur að sækja Villigæsina og koma henni heim. Þau ákváðu að gefa sér rúman tíma í það verkefni og njóta þess um leið að sigla um þetta svæði í rólegheitum.

Börðust við storma

Í áhöfninni voru, auk þeirra hjóna, dóttir þeirra Helga Þöll, kærasti hennar Arnar Ingi Traustason, bæði 16 ára, og Steindór Guðjónsson, faðir Guðjóns.

Veðrið setti strik í reikninginn en lægðirnar biðu í röðum og röskuðu aðeins ferðaplaninu. „Ferðin dróst um rúma viku út af veðri. Strax í byrjun þegar við lögðum af stað frá Dublin þá vorum við ekki búin að stíma nema í tvo tíma þegar tækin sýndu stormviðvörun og við þurftum að snúa við,“ segir Svava.

Afi og amma í Suðurhöfum

Fjölskyldan er hvergi nærri hætt að sigla eftir ferðina og á döfinni eru fleiri ferðir. „Það stendur sko til! Það er langtímamarkmið að sigla út í buskann og vera svona amma og afa í Suðurhöfum,“ segir Svava, „og fá barnabörnin send til okkar í hafnir hér og þar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert