Við ráðum ekki við veðurguðina

Guðni Páll Viktorsson
Guðni Páll Viktorsson mynd/Einar Björn Einarsson

Guðni Páll getur ekki tekið lokasprettinn á kajakróðri sínum umhverfis Ísland á morgun sökum veðurs en ætlunin var að loka þá hringnum á Höfn í Hornafirði.

„Þetta leit vel út í dag, en skjótt skipast veður í lofti,“ sagði Sigurlaug Ragnarsdóttir, verkefnastjóri Styrktarfélags Samhjálpar. „Það verður svo mikið rok á morgun og hann væri þá með vindinn beint í fangið.“

Reiknað er því með að róa síðasta spölinn á fimmtudag. „Veðurfræðingar segja nú að það eigi að vera smuga á fimmtudag en hann verður í landi þangað til.“

Sigurlaug segir vel liggja á Guðna. „Hann sér nú fyrir endann á þessu og létt er því yfir honum. Við vorum svekkt þar sem við vorum búin að búa okkur undir að taka á móti honum á morgun en það verður að frestast um einn dag. Við ráðum ekki við veðurguðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka