Umfangsmiklar björgunaraðgerðir fóru af stað við Hádegismóa í morgun þegar eigendur páfagauksins sem þar fannst í morgun gáfu sig fram.
Fuglinn er tíu ára gamall gári með bláa bringu og ber nafnið Sky. Hann hafði verið týndur frá því hann slapp frá heimili sínu í Seljahverfi á þriðjudaginn í síðustu viku.
Sky var því að vonum hrakinn, kaldur og uppgefinn þegar eigendur hans, Kolbrún Edda Aradóttir og Vilborg Jónsdóttir, komu að vitja hans upp úr klukkan níu í morgun. Eftir misheppnaða tilraun til að freista hans með Lays barbeque-snakki og ná honum með stiga ofan af inngangi hússins tókst Kolbrúnu að lokka hann í búrið ofan af útskoti á gafli hússins, en þangað komst hún með hjálp lyftara prentsmiðjunnar.
„Við erum óskaplega þakklátar að fá hann aftur,“ sagði Vilborg þegar fuglinn komst loks niður.