„Ég er gríðarlega stoltur“

Guðni Páll Viktorsson kom til Hafnar í Hornafirði í kvöld.
Guðni Páll Viktorsson kom til Hafnar í Hornafirði í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er gríðarlega stoltur yfir því að mér skyldist takast þetta,“ segir Guðni Páll Viktorsson kajakræðari, sem lauk í kvöld hringferð sinni umhverfis landið. Ferðin tók hann samtals þrjá mánuði. Guðna var vel fagnað þegar hann réri upp í fjöru á Höfn í Hornafirði í kvöld.

Guðni lagði af stað frá Höfn 30. apríl. Upphaflega reiknaði hann með því að leiðangurinn tæki tvo mánuði, en ferðin tók hann þrjá mánuði. Veðrið var oft þannig að Guðni neyddist til að halda kyrru fyrir. „Ég átti allt eins von á því að veðrið gæti haft áhrif á ferðina. Ég var því alveg undirbúinn undir það að þetta yrði lengra ferðalag en ég hafði áætlað. Ég vissi áður en ég lagði af stað að þessi leiðangur yrði bæði erfiður líkamlega og ekki síður andlegur. Það er mikilvægt að hafa hausinn í lagi í svona verkefni.“

Guðni sagði að ýmislegt hefði komið upp á á þessu langa ferðalagi. „Það komu upp atvik þar sem  reyndi mikið á mig. Ég var þó aldrei í lífshættu, en ég viðurkenni að ég var stundum nálægt því. Ég var búinn að þjálfa gríðarlega vel fyrir þetta, bæði líkamlega og andlega. Ég bý að mikilli reynslu og var því vel undirbúinn.“

Guðni fékk höfðinglegar móttökur þegar hann réri inn Hornafjörð. Margir bátar komu á móts við hann og múgur og margmenni beið hans í fjörunni. „Ég er mjög ánægður með þá ákvörðun að hafa byrjað hér.“

Síðasti spölurinn var ekki auðveldur. „Það gekk ágætlega í dag, en ég þurfti þó að hafa fyrir þessu í lokin. Það var strekkingsvindur á móti, 10 m/sek, og straumurinn var líka á móti mér. En ég hafði þetta í gegn.“

Réri til styrktar Samhjálp

Guðni er 26 ára gamall. Hann sagðist núna fá stutt sumarfrí, en síðan mætir hann í vinnuna hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Hann sagðist vera farinn að velta fyrir sér næsta verkefni en vildi ekki upplýsa hvað það væri. Hann ætti eftir að ræða það við fjölskylduna.

Guðni vildi koma á framfæri þökkum til allra sem hefðu aðstoðað hann með margvíslegum hætti á ferðinni, til fjölskyldu, unnustu og vina. Án þeirra hefði þetta ekki tekist. Hann sagðist einnig hafa fengið ómetanlegan stuðning frá Össuri.

Tilgangur róðursins er að safna fé til styrktar Samhjálp. Þeir sem vilja styrkja Samhjálp geta farið inn á vefsíðu um leiðangurinn.

Guðni Páll er nýorðinn 26 ára gamall.
Guðni Páll er nýorðinn 26 ára gamall. kayakklubburinn.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka