Guðni Páll lokar hringnum í kvöld

Guðni Páll Viktorsson.
Guðni Páll Viktorsson. Eggert Jóhannesson

Guðni Páll Viktorsson kemur til með að ljúka kajakrórðri sínum umhverfis Ísland á milli 18 og 20 í kvöld á Höfn í Hornafirði.

Hann er nú staddur á Hvalneskrók þar sem hann bíður betri veðurskilyrða til að leggja af stað en það verður að líkum um hádegisbilið. Þá tekur hann lokasprettinn sem er um 40 kílómetrar.

Guðni neyddist til að koma í land á Hvalneskrók eftir að hann lenti í miklum háska á leið frá Djúpavogi. Verulega tók að hvessa og lenti hann í miklum mótvindi. Með auknum mótvindi jókst öldugandur og þar að auki skall á svarta þoka. Verðið versnaði sífellt og hann átti erfitt með að komast í land vegna brims og grjóturðar í fjörum. Þá komst hann ekki í matarboxið sitt vegna sjógangsins og var því matarlaus. Landhelgisgæslan leiðbenti honum að lokum í land eftir sjö klukkustunda átök við sjóinn.

Sigurlaug Ragnarsdóttir, verkefnastjóri Styrktarfélagsins Samhjálpar segir að vel verði tekið á móti Guðna þegar hann kemur í land. „Við erum búin að undirbúa afar góðar móttökur, einhverjir bátar koma til með að fara á móti honum og mikið fjölmenni fagnar honum við komu.“

Hún segir Guðna vera afar spenntan fyrir því að koma í land. „Nú er þetta alveg á lokametrunum og það er alveg yndisleg tilfinning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert