Á kvölddagskrá þjóðhátíðar í Eyjum stíga 60 flytjendur á stokk, ýmist sem söngvarar eða í hljómsveitum. Af þeim flytjendum eru þrjár konur og eru þær því 5% allra flytjenda. Þær konur sem fram koma eru Ragga Gísla, Urður Hákonardóttir í GusGus og Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir í Retro Stefson.
Birgir Guðjónsson, formaður þjóðhátíðarnefndar, segist ekki hafa hugsað út í hlutföllin. „Við veljum bara vinsælustu skemmtikraftana og þetta eru vinsælustu böndin í dag.“
Hann telur að kvenfólk þurfi að vera duglegra við koma sér í hljómsveitir. „Það vantar alveg Grýlurnar. Hugsa sér hvernig þetta hefði nú verið ef værum með Fjallabræður.“
Hann telur að til góðs gæti verið að hafa hlutföllin jafnari í framtíðinni. „Þetta er algjörlega ómeðvitað og verður að minnsta kosti svona þetta árið en við hugum kannski að þessu þegar fram líða stundir. Við ættum bara að taka kvennakór inn í dagskrána.“
Védís Hervör Árnadóttir, formaður KÍTON, félags kvenna í tónlist, telur vandamálið vera dýpra og liggja í tónlistarmenningunni almennt á Íslandi. „Ég trúi engum upp á að ákveða að hafa bara karla. Þetta val snýst um það að konur eru ekki nógu sýnilegar þó þær séu að gera frábæra hluti.“
„Valið endurspeglast af því sem almennt er í hlustun. Þetta er rótgrónara vandamál og kemur fram í fleiri þáttum.“ Hún segir áhugavert að hlutfall kvenna virðist vera svipað á nokkrum sviðum tónlistarinnar og endurspegli til dæmis tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunana og greidd stefgjöld. „Við tókum saman fjölda kvenna sem voru tilnefndar og þar voru konur um 3%. Einnig er áhugavert að af öllum stefgjöldum sem greidd eru út fara um 9% til kvenna. Þetta virðist haldast allt í hendur.“
Hún telur kynjakvóta af einhverju tagi ekki vera lausnina við vandanum. „Ég tel að frekar eigi að reyna að biðla til almennrar skynsemi staðarhaldara. Þetta er menningarlegt vandamál en við erum að reyna að fara í leiðréttingar og það mun án efa taka langan tíma að leysa. Kynjakvótar gætu verið ágætis hugmynd fyrst um sinn en það leysir bara ekki allt vandamálið því það er mun rótgrónara.“
„Þetta lýtur að menningunni, menntun, viðhorfi og því hvernig stúlkur halda að þær eigi að vera innan hljómsveita og hvaða hlutverki þær eigi að gegna.“