Alvarlegt flugslys á Akureyri

Lítil flugvél brotlenti í dag á Hlíðarfjallsvegi rétt fyrir ofan Akureyrarbæ á athafnasvæði Bílaklúbbs Akureyrar. Þrír voru um borð í vélinni.

Samkvæmt upplýsingum aðalvarðstjóra slökkviliðsins á Akureyri sem er á vettvangi hafa allir sem í vélinni voru verið fluttir á sjúkrahús. Þeir eru alvarlega slasaðir. Samkvæmt fréttatilkynningu er vélin frá Mýflugi og var í sjúkraflugi.

Fjölmennt lið lögreglu- og slökkviliðsmanna er á staðnum. Einnig er fjöldi björgunarsveitarmanna á vettvangi.

Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð klukkan 13:30 vegna flugvélar sem brotlenti á Hliðarfjallsvegi við Akureyri. Þrír voru um borð í vélinni. Björgunarlið hefur verið virkjað samkvæmt flugslysaáætlun Akureyrarflugvallar. Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið á vettvang, segir í frétt frá almannavörnum ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert