Hinsegin dagar hefjast í Reykjavík á morgun. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1999 en rekur rætur sínar til Frelsisgangna homma og lesbía sem gengnar voru í miðborg Reykjavíkur árin 1993 og 1994.
Hinsegin dagar eru tileinkaðir hinsegin fólki á Íslandi; baráttu þess, frumkvæði og gleði. Þar sameinast hinsegin fólk ásamt fjölskyldum sínum og vinum og staðfesta stöðu sína sem stoltir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, segir í fréttatilkynningu.
Hinsegin dagar í Reykjavík hafa vaxið gríðarlega á undanförnum 15 árum. Árið 1999 komu um 1.500 manns saman á Ingólfstorgi að lokinni gleðigöngu en undanfarin ár hafa allt að 90.000 gestir komið saman í miðborg Reykjavíkur í tengslum við hátíðina.
Í ár stendur dagskrá Hinsegin daga í sex daga, hátíðin hefst með hinsegin sögugöngu um miðborgina og kvikmyndasýningu í Bíó Paradís þriðjudaginn 6. ágúst. Dagskrá vikunnar er fjölbreytt og glæsileg og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Sem fyrr nær hátíðin hámarki með gleðigöngu og útihátíð við Arnarhól laugardaginn 10. ágúst þar sem landsmönnum öllum er boðið til sannkallaðrar gleðiveislu.
Helstu upplýsingar um Hinsegin daga má finna á vefsíðu hátíðarinnar.
Aðgöngumiða og regnbogavarning má nálgast í Kaupfélagi Hinsegin daga í IÐU við Lækjargötu alla daga milli kl. 12 og 20.