Maðurinn sem kveikti í hurð Alþingishússins í nótt, og reyndi í kjölfarið að kveikja í sjálfum sér, var í annarlegu ástandi. Atvikið náðist á myndband og að sögn skrifstofustjóra Alþingis má þakka snarræði dyravarða að ekki fór verr.
Að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingsis, gekk maðurinn inn í eldinn eftir að hafa kveikt í hurðinni. Hann segir óljóst hversu mikill eldur festist í fötum mannsins en snögg viðbrögð dyravarða á Thorvaldsen bar bjargaði því að ekki fór illa.
„Hann gekk beint til verks, skvetti úr bensínbrúsa á dyrnar og að einhverju leyti á sjálfan sig. Svo kveikti hann í,“ segir Helgi. Hann segir að þingvörður hafi farið út og í sama mund komu árvökulir dyraverðir á staðinn. „Þeir hlupu yfir Austurvöll með slökkviliðstæki í hönd og byrjuðu á því að slökkva í manninum, og svo þann eld sem læst hafði sig í hurðinni,“ segir Helgi. Því næst yfirbuguðu þeir manninn og héldu honum þar til lögregla kom á staðinn. Var hann því næst færður í fangageymslur lögreglunnar. Eldurinn logaði í um 2-3 mínútur.
Helgi segir að nokkuð tjón hafi orðið á hurðinni en ekki sé hægt að meta það hversu mikið það er að svo stöddu. „Hann hrópaði einhver ókvæðisorð og var greinilega í miklu uppnámi,“ segir Helgi um manninn sem var á þrítugsaldri.
Ajá einnig: Kveikti eld við Alþingishúsið