Dyravörður á Thorvaldsen bar sem kom örvingluðum manni til bjargar sem kveikt hafði í hurð alþingishússins segir að einungis hafi munað sekúndubroti á því að maðurinn hefði kveikt í sér. Hafði hann þá rennbleytt sig í olíu og gerði sig líklegan til þess að ganga inn í eldinn.
„Ég tek eftir því að mjög mikið bál hafði myndast hinu megin við Austurvöll og eldtungurnar náðu að svölum Alþingis. Í fyrstu hélt ég að verið væri að ráðast á Alþingi,“ segir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson dyravörður á Thorvaldsen um atvikið.
Rennbleytti sig með olíu
Hann og annar starfsmaður á Thorvaldsen flýttu sér yfir að Alþingishúsinu þegar þeir sáu í hvað stefndi. „Ég heyrði að hann var að mótmæla kerfinu og annað. Ég hljóp inn í hús, náði í slökkvitæki og annar félagi minn náði í kolsýrutæki. Svo fórum við að Alþingishúsinu,“ segir Sveinn.
Hann segir að nokkur fjöldi hafi safnast saman til að fylgjast með atburðarrásinni en enginn gerði neitt. „Þegar við komum að var hann orðinn rennblautur. Við fundum mikla olíulykt. Hann sparkar í olíubrúsana og upp blossaði mikill eldur. Við reyndum að vera snöggir að hugsa. Félagi minn sem var með kolsýruna „pústaði“ framan í hann úr svona tveggja metra fjarlægð. Við það stuðaðist hann og um leið fer ég í það að slökkva eldinn í húsinu því hann var að reyna að komast í eldinn, þetta var bara spurning um sekúndubrot,“ segir Sveinn.
Sýndi ekki mótspyrnu
„Við náðum að slökkva eldinn strax. Þá gekk hann til hliðar og við yfirbuguðum hann í rólegheitum, klöppuðum honum á bakið, töluðum við hann og hann fór að gráta,“ segir Sveinn. Hann segir að maðurinn hafi verið mjög æstur en hafi ekki sýnt mótspyrnu.
Hann segir að áberandi hve dólgslega fólk sem stóð nærri lét. „Sumir stóðu yfir okkur og kveiktu sér í sígarettu. Við þurftum að fá aðstoð þingvarðar til þess að halda fólkinu frá. En athugasemdir fólksins voru ekki góðar,“ segir Sveinn.
Hann segir að þegar lögreglan kom að hafi málið leyst á innan við mínútu. Maðurinn var tekinn inn í lögreglubíl og farið var með hann í burtu.
Fréttir mbl.is: