Tvær pólskar stúlkur létust í slysinu í gær

Tvær pólskar stúlkur létust í bílslysinu á Suðurlandsvegi í gær. Þær voru 15 og 16 ára. Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á Selfossi sendi frá sér.

Í tilkynningunni segir að laust fyrir klukkan þrjú í gær, sunnudag, hafi orðið alvarlegt umferðarslys á Suðurlandsvegi, skammt austan við Meðallandsveg. Fólksbifreið var ekið út af veginum en fjórar manneskjur voru í bifreiðinni sem valt nokkrar veltur út fyrir veg og hafnaði á hvolfi. Tveir farþegar köstuðust úr út bifreiðinni en tveimur var bjargað úr henni í þann mund sem eldur kviknaði í henni.

Farþegarnir sem köstuðust út, stúlkur fæddar 1997 og 1998  voru síðar úrskurðaðar látnir á vettvangi þegar lífgunartilraunir, sem vegfarendur hófu en var haldið áfram af hjálparliði,  báru ekki árangur.  Ökumaður og farþegi í framsæti, karl og kona, voru síðan flutt með þyrlum landhelgisgæslunnar á slysadeild LSH og eru nú á gjörgæsludeild, þó ekki talin í lífshættu.  Fólkið er allt pólskir ríkisborgarar  en stúlkurnar sem létust voru gestkomandi á Íslandi. 

Mikill viðbúnaður var vegna slyssins.  Lögreglumenn frá  lögreglunni á Hvolsvelli, staðsettir á Kirkjubæjarklaustri, auk lögreglumanns frá rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi komu á vettvang ásamt sérfræðingi í bíltæknirannsóknum.  Einnig kom á vettvang slökkvilið frá Vík og Kirkjubæjarklaustri sem og sjúkrabílar frá Vík og Kirkjubæjarklaustri.  Læknir frá Vík kom á staðinn auk þess sem björgunarsveitir í Skaftárhreppi aðstoðuðu við vinnu á vettvangi og við að loka umferð um Suðurlandsveg á meðan vinnu stóð.  Umferð var beint um Meðallandsveg og Hrífunes á meðan lokunin stóð en vegurinn var opnaður um 18:30

Rannsókn á tildrögum slyssins stendur yfir en rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi fer með hana í samvinnu við lögregluna á Hvolsvelli.

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um tildrög slyssins eða rannsókn þess að sinni, samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Banaslys á Suðurlandsvegi

Vakandi og ekki í öndunarvél

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert