Safnað fyrir hinstu för pólsku stúlknanna

Pólsku stúlkurnar sem létust í bílslysi Natalia Gabinska (vinstri) og …
Pólsku stúlkurnar sem létust í bílslysi Natalia Gabinska (vinstri) og Magdalena Hyz (hægri).

„Þær voru lífsglaðar, alltaf brosandi og hamingjusamar,“ segja nánustu ættingjar þeirra Mögdu Hyz og Nataliu Gabinsku, stúlknanna sem fórust í bílslysinu á Suðurlandsvegi þann 3. ágúst. Þær verða fluttar til Póllands og jarðsettar í heimabæjum sínum og er hafin söfnun til að fjármagna flutninginn.

Stúlkurnar komu báðar hingað til lands í sumarfrí til að heimsækja ættingja sína. Það er ósk fjölskyldna þeirra í Póllandi að þær verði jarðsungnar í heimalandi sínu en flutningurinn er mjög dýr.

Agnieszka Beata Hyz, ættingi annarrar stúlkunnar segir heildarkostnaðinn ekki liggja fyrir, en útlit er fyrir að hann muni hlaupa á að minnsta kosti tveimur milljónum króna í heildina. Hún segir marga þegar hafa boðið þeim aðstoð, bæði hér á landi og í Póllandi við að standa straum af flutningunum.

Aðstoð við þeirra hinstu för heim

Natalia fæddist 6. mars 1998 í Póllandi. Hún var framhaldsskólanemi í Póllandi en stödd hér á landi í heimsókn hér á landi hjá móður sinni, sem var einnig farþegi í bifreiðinni.

Magdalena fæddist einnig í Póllandi 9. maí 1997 og var stödd hér á landi í heimsókn hjá frændfólki sínu. Natalia var í sinni fyrstu Íslandsheimsókn en Magdalena í sinni annarri. Stúlkurnar kynntust nýlega og tókst strax með þeim góður vinskapur.

Fjölskyldur stúlknanna biðla til fólks um aðstoð við fjármögnun á þessari hinstu ferð táningsstúlknanna til heimabæja sinna.

Opnaður hefur verið sérstakur bankareikningur þar sem hægt er að leggja inn og styðja við fjölskyldurnar á þessum erfiðu tímum:

Reikningur: 0130-05-061895

Kennitala: 200579-4029

Sjá einnig umfjöllun um söfnunina á íslensk/pólsku fréttasíðunni Icelandnews.is.

Nöfn stúlknanna sem létust

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert