„Þetta var svo óraunverulegt“

Björgunarmenn við flak vélarinnar á kvartmílubrautinni .
Björgunarmenn við flak vélarinnar á kvartmílubrautinni . mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég var með augun á vélinni og gekk eiginlega á móti henni til að sjá betur hvað var að gerast. Þá sá ég að hún var á þvílíkri ferð og svo þegar hún tættist í sundur á brautinni fyrir framan mig.“ Þannig lýsir einn margra sjónarvotta brotlendingu sjúkraflugvélar Mýflugs á akbraut Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjall á mánudag. „Þetta var svo óraunverulegt.“

Maðurinn kýs að koma ekki fram undir nafni en var tilbúinn að lýsa því fyrir mbl.is hvernig brotlendingin kom honum fyrir sjónir. „Ég var nýstiginn út úr bílnum og tiltölulega nýbúinn að fara ferð. Var svona bara á dólinu þarna í „pyttinum“ og ætlaði að fá lánaðan loftmæli hjá drengjunum þarna. Þá sá ég flugvél ægilega lágt á lofti og eiginlega á hlið yfir brautinni. Stundarkorn velti ég fyrir mér hvort þetta væri listflug en áttaði mig strax á að vélin var alltof stór til þess að það gæti verið rétt.“

Hann segir að þeir sem staðið hafi lengra frá hafi margir hverjir hlaupið í skelfingu og stokkið út í móa til að forða sér. „Í mínu tilviki var ég svo nálægt þessu að ég bara fraus. Þetta var svo óraunverulegt að maður áttar sig ekkert á því hvað var að fara gerast. Svo rakst vængurinn í jörðina og þetta sprakk allt í tætlur, það kom yfir okkur svakalegur hiti og rigndi heitum vökva sem eftir á að hyggja tel ég að hafi verið óbrunnin steinolía því hún lá yfir öllu svæðinu á eftir. Við það rankaði maður betur við sér.“

Eins og eftir stríðsátök

Maðurinn segir að flakið af flugvélinni hafi skutlast út í móa en stélið brotnaði af og stefndi í áttina að „pyttinum“. Fór svo að það staðnæmdist um tuttugu metra frá bíl hans. „Það fékk mikið á mann að sjá stélið stefna að okkur. Þegar það stoppaði heyrðust einnig miklar sprengingar úr brakinu, mikill eldur stóð upp úr og það kviknaði í sinu á nokkuð stóru svæði. Þetta var eins og eftir einhver stríðsátök.“

Þegar mönnum varð ljóst hvað hafði gerst þustu einhverjir þeirra að flaki flugvélarinnar og hlúðu að þeim sem voru um borð. Slökkvilið og sjúkraflutningamenn voru einnig afar snöggir á vettvang og tóku yfir stjórn á vettvanginum. Maðurinn fór með öðrum og fékk áfallahjálp og segist enn vera að vinna úr þessum atburðum. „Maður er auðvitað mjög heppin að vera á lífi.“

Flak vélarinnar við athafnasvæði Bílaklúbbins á Akureyri.
Flak vélarinnar við athafnasvæði Bílaklúbbins á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert