Bíða rannsóknargagna í kynferðisbrotamáli

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti sem átti sér stað í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina er langt á veg komin, en tvítug stúlka kærði karlmann um fertugt fyrir að haf brotið gegn sér í Herjólfsdal aðfararnótt 5. ágúst.

Stúlkan heldur því fram að maðurinn hafi neytt sig til munnmaka, að því er fram hefur komið.

Maðurinn var handtekinn í Vestmannaeyjum og var hann síðan fluttur til Selfoss til frekari skýrslutöku. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, segir í samtali við mbl.is, að búið sé að taka skýrslu af stúlkunni og manninum sem var svo sleppt að lokinni skýrslutöku. Einnig er lögreglan búin að ræða við þrjú vitni í tengslum við rannsókn málsins.

Oddur segir að skýrslutökum sé nú lokið en að lögreglan bíði frekari rannsóknargagna. Aðspurður segir hann það ekki liggja fyrir hvenær málið muni fara í hendur ákæruvaldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert