Reykjavík hefur orðið glaðlegri með hverjum deginum þessa vikuna, en hápunktinum verður náð með sjálfri Gleðigöngunni á morgun. Einhverjir vegfarendur hafa þó eflaust glaðst fyrirfram í dag á gangbrautum í miðborginni þar sem hvítur hefur vikið fyrir öllum litum regnbogans.
Á gatnamótum Hverfisgötu og Lækjargötu tók þessi litríka gangbraut á sig mynd í dag. Það er viðeigandi því sjálfri Gleðigöngunni lýkur einmitt þarna við Arnarhól á morgun og tekur þá við mikil hátíðardagskrá.
Gangan leggur af stað kl. 14:00 frá BSÍ og um Sóleyjargötu og Lækjargötu að Arnarhól. Búist er við miklum mannfjölda og verða götur lokaðar í nágrenni leiðarinnar og hátíðasvæðisins. Dagskráin á Arnarhóli stendur til 17:30.