Óheimilt að sakfella Baldur

Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík telur að Hæstarétti hafi verið óheimilt að sakfella Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, á þeim grundvelli að hann væri tímabundinn innherji, enda hafi hann með því verið dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greindi.

Þetta kemur fram í grein Eiríks Elísar Þorlákssonar, hæstaréttarlögmanns og lektors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í nýjasta tölublaði Úlfljóts, tímariti laganema. Í greininni fer Eiríkur Elís yfir mál ákæruvaldsins gegn Baldri og niðurstöðu dómstóla.

Hæstiréttur dæmdi Baldur í tveggja ára fangelsi vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi, en hann seldi hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. september 2008 þegar hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika.

Baldur sendi kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann taldi að réttur á sér hefði verið brotinn í skilningi ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu. Meðal annars réttur hans til réttlátrar málsmeðferðar þar sem hann var sakfelldur fyrir annað en hann var ákærður fyrir. Baldur var ákærður fyrir að hafa verið annar innherji í skilningi laga en sakfelldur fyrir að hafa verið tímabundinn innherji.

Niðurstaða án kröfu ákæruvaldsins

„Ákæra í sakamáli markar upphaf sakamálsins fyrir dómstólum og leggur grunninn að málatilbúnaði ákæruvaldsins. Þó að málsforræðisreglan gildi ekki að meginstefnu til í sakamálum, þá er þýðingarmikla undantekningu að finna frá því í 180. gr. sml. Lagaákvæðið er hluti af reglum um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, sem verndaðar er af stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvæðið felur í sér að dómstólar mega ekki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en lýst er í ákæru,“ segir Eiríkur Elís í grein sinni.

Hann segir að við skoðun á dómi Hæstaréttar í málinu gegn Baldri vakni upp spurningar hvort Hæstiréttur hafi dæmt hann fyrir aðra hegðun en lýst var í ákæru. „Niðurstaða af þeim vangaveltum er að það samrýmist ekki 1. mgr. 180. gr. sml. að dæma ákærða sem tímabundinn innherja, enda hafði hann verið ákærður sem annar innherji og vörnun var ekki komið að hvað varðar þetta atriði, sem hefur einmitt verulega efnislega þýðingu í málinu.“

Einnig segir Eiríkur að svo virðist sem Hæstiréttur hafi komist að þessari niðurstöðu, þ.e. að Baldur hafi verið tímabundinn innherji, að eigin frumkvæði og án kröfu ákæruvaldsins. „Hvað sem líður því á hverju Hæstiréttur byggði þá verður að telja, með vísan til alls framangreinds, að það hafi verið óheimilt að sakfella ákærða á þeim grundvelli að hann væri tímabundinn innherji, enda var með því ákærði dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greindi og undantekningarákvæði 1. mgr. 180. gr. áttu ekki við í málinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka