Forsætisráðherrar Norðurlandanna munu eiga fund með Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, þann 4. september næstkomandi í Stokkhólmi. Þetta kemur fram á vef Politiken og Berlingske en forsætisráðherra Danmerkur Helle Thorning-Schmidt greinir frá þessu á vef sínum.
Ekkert hefur verið minnst á þetta á vef forsætisráðuneytisins á Íslandi en samkvæmt upplýsingum frá danska forsætisráðherranum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson meðal gesta á fundinum auk starfsbræðra í Svíþjóð og Noregi og forseta Finnlands.
Fundurinn verður haldinn í Stokkhólmi eins og áður sagði en Obama verður í opinberri heimsókn í Svíþjóð 4. og 5. september.