Bandaríska alríkislögreglan, FBI, bauð Sigurði Inga Þórðarsyni, sem hefur verið kallaður Siggi hakkari, á lúxushótel í Kaupmannahöfn þar sem tekin voru við hann viðtöl um uppljóstrunarsíðuna Wikileaks haustið 2011. Var það eftir að samstarfi við fulltrúa FBI var hætt hér á landi.
Kaupmannahafnarpósturinn greinir frá þessu á vefsvæði sínu. Þar er vitnað í grein tæknitímaritsins Wired sem mbl.is fjallaði um í júní síðastliðnum. Í greininni segir meðal annars að fulltrúar FBI hafi boðið Sigurði Inga til Kaupmannahafnar í tvígang til fundar um Wikileaks. Annars vegar hafi Sigurður gist á Hilton og hins vegar Marriott, í boði alríkislögreglunnar.
Það sem Kaupmannahafnarpósturinn veltir hins vegar helst fyrir sér er hvort dönsk stjórnvöld hafi vitað af komu fulltrúa FBI og fundahöldum þeirra með Sigurði Inga. Dómsmálaráðuneytið danska neitaði að svara spurningum um það hvort stjórnvöld heimiluðu alríkislögreglunni bandarísku að yfirheyra Sigurð Inga í Danmörku.
Fullyrðir blaðið að yfirheyrslur fulltrúa alríkislögreglunnar hafi verið ólöglegar ef samþykki danskra stjórnvalda kom ekki til.