Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur sent Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra bréf þar sem hann óskar eftir svörum varðandi aðildarumsókn og samningaviðræður Íslands við Evrópusambandið.
Fulltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd Alþingis óskaði eftir fundi í nefndinni vegna mála tengdra ESB í síðustu viku. Bréf formanns Samfylkingarinnar verður sett þar á dagskrá um leið og ráðherrann sér sér fært að koma á fund nefndarinnar.
Spyr Árni Páll meðal annars hvort aðildarumsókn Íslands hafi verið afturkölluð eða henni frestað (með áþekkum hætti og Sviss frestaði sinni umsókn 6. desember 1992) að þjóðréttarlega gildum hætti.