Ásakanir um harðræði á leikskóla

Mynd úr safni
Mynd úr safni

Stjórnendur leikskólans 101 segja ásakanir um harðræði á leikskólanum alvarlegar og hafna þeim alfarið. Ríkisúrvarpið greindi frá því í gærkvöldi að Barnavernd Reykjavíkur rannsakaði hvort starfsmenn leikskólans 101 í Reykjavík hefðu beitt börn margvíslegu harðræði.

Málið komst upp þegar tveir sumarstarfsmenn á leikskólanum sýndu barnavernd myndbönd í gær og tilkynntu málið formlega.

Ekki tekið á móti börnum á leikskólanum fyrr en rannsókn er lokið

„Vegna fréttaflutnings tengds Leikskólanum 101 og meintu harðræði sem þar hafi átt sér stað vilja stjórnendur hans taka eftirfarandi fram:

Eðli málsins samkvæmt er hér um að ræða afar alvarlegar ásakanir. Stjórnendur leikskólans hafna þeim alfarið og fagna því að málið sé rannsakað, enda muni rannsókn leiða hið sanna í ljós. Ill meðferð á börnum, sama hvaða nafni hún nefnist, á ekki að líðast. Það er skylda barnaverndaryfirvalda að rannsaka til hlítar slíkar ásakanir ef þær koma upp. Börnin eiga ávallt að njóta vafans. Stjórnendur og starfsfólk leikskólans munu veita yfirvöldum alla þá aðstoð og upplýsingar sem þarf til að hægt sé að komast til botns í þessum ásökunum.

Stjórnendur leikskólans voru upplýstir um málið síðdegis í gær. Í kjölfarið voru allir starfsmenn boðaðir á fund og þeim skýrt frá málinu. Stjórnendur höfðu í gærkvöldi samband við foreldra barna á leikskólanum og upplýstu þá eftir bestu getu um stöðu mála. Ljóst er að ekki verður tekið á móti börnum á leikskólanum fyrr en búið er að hreinsa hann og starfsmenn af þessum ásökunum.

31 barn er á Leikskólanum 101. Öll eiga þau aðstandendur sem eru í uppnámi vegna þessa máls. Starfsmenn leikskólans eru níu talsins og þeir eiga einnig um sárt að binda. Við viljum biðja fólk vinsamlegast að sýna aðgát í nærveru sálar og fresta því að fella dóm fyrr en öll kurl eru komin til grafar.

Leikskólinn 101 hefur starfað í tæpan áratug á sama stað í Vesturbæ Reykjavíkur og hjá okkur hafa dvalið hundruð barna án þess að nokkurn skugga hafi borið á það starf. Að sitja undir ásökunum sem þessum er okkur afar þungbært en um leið sýnum við rannsóknarskyldum borgarinnar fullan skilning. Vonumst við til að þau leggi allt kapp á að upplýsa málið fljótt og vel – okkur og börnunum til heilla,“ segir í yfirlýsingu frá stjórnendum leikskólans 101 sem send var á fjölmiðla í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert