Ásakanirnar alvarlegar

Rannsókn Barnaverndar Reykjavíkur á málefnum ungbarnaleikskólans 101 í Reykjavík stendur nú yfir, en starfsmenn leikskólans eru sakaðir um að beita börn harðræði. Borgaryfirvöld segja málið viðkvæmt en að tekið verði á því af festu. 

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að tveir starfsmenn leikskólans hafi verið sendir í leyfi á meðan málið væri til rannsóknar.

Barnavernd var gert viðvart um málið í gær og var henni afhent myndskeið sem eru sögð sögð sýna hvernig starfsmenn leikskólans beittu börn harðræði. Starfsmennirnir tveir sem tilkynntu um málið voru í sumarafleysingum á leikskólanum.

Foreldri, sem mbl.is ræddi við í dag, segir að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi í gærkvöldi haft samband við sig og aðra foreldra. Voru þau upplýst um rannsóknina og þeim ráðlagt að fara ekki með börnin á leikskólann á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við RÚV, sem fyrst greindi frá málinu í gærkvöldi, að málefni leikskólans væru til rannsóknar. Skóla- og frístundasvið athugar rekstur leikskólans í samráði við lögfræðing borgarinnar í dag.

Stjórnendur leikskólans 101 segja ásakanir um harðræði á leikskólanum alvarlegar og hafna þeim alfarið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnendurnir sendu frá sér í dag. 

Þar kemur ennfremur fram, að stjórnendur leikskólans hafi verið upplýstir um málið síðdegis í gær. Í kjölfarið voru allir starfsmenn boðaðir á fund og þeim skýrt frá málinu. Stjórnendur höfðu í gærkvöldi samband við foreldra barna á leikskólanum og upplýstu þá eftir bestu getu um stöðu mála.

Foreldrið, sem mbl.is ræddi við, segir það ekki rétt að forsvarsmenn leikskólans hafi haft samband við foreldra barnanna. „Ég fékk ekki símtal frá þeim,“ segir foreldrið og bætir við að aðrir foreldrar hafi sömu sögu að segja. Símtal hafi aftur á móti borist frá Barnavernd Reykjavíkur, sem fyrr segir.

Samkvæmt heimildum mbl.is eru starfsmenn leikskólans m.a. sakaðir um að hafa flengt börn, tekið harkalega í hendur og axlir þeirra, sett þau inn í lokuð rými, bundið þau við stóla og haldið frá þeim mat.

Leikskólinn er ungbarnaleikskóli þar sem dvelur 31 barn. Börnin eru frá 9 - 18 mánaða gömul. Starfsmenn leikskólans eru níu talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert