Einungis 14% svarenda í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sögðust bera frekar mikið eða fullkomið traust til Alþingis í könnun sem gerð var dagana 19. febrúar til 4. mars á þessu ári. Þetta kemur fram í skýrslu sem Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis kynnti á blaðamannafundi í dag.
Á fundinum sagði Einar að af svörum þátttakenda í könnuninni megi draga þá ályktun að vantraustið sé ekki á Alþingi sem stofnun og löggjafa, heldur beinist mun frekar að þingmönnunum sjálfum.
Meginástæður vantraustsins eru samkvæmt könnuninni aðallega samskiptamáti þingmanna, vinnulag á Alþingi og ómálefnaleg umræða á þinginu. Þannig sögðu 79% aðspurðra að virðingarleysi þingmanna hver fyrir öðrum og „skítkast“ á kostnað málefnalegrar umræðu dragi mjög úr áliti almennings á Alþingi
72% svarenda sögðu vinnulag þingsins til þess fallið að valda vantrausti. Forgangsröðun mála á þingi og aðgerða- og getuleysi þingmanna til að vinna að og ljúka málum á þátt í þessu vantrausti, auk þess sem þátttakendur í könnuninni upplifa að þingmenn hlusti ekki á almenning.
Algengt svar við opinni spurningu í símakönnum um ástæður vantraustsins var að umræður í þinginu væru ómálefnalegar
Þátttakendur könnunarinnar voru spurðir um hvort tiltekin atriði, sem voru ítrekað nefnd í rýnihópi við undirbúning símakönnunar, myndu auka traust þeirra á Alþingi. Fimm af þeim níu atriðum sem spurt var um voru afgerandi í þessum efnum.
60% aðspurðra sögðu að markvissara starf myndi auka traust þeirra á Alþingi. 59% sögðu meiri gagnkvæma virðingu þingmanna auka traust og 53% sögðu minna málþóf skila meira trausti. 50% vildu að þingmenn segðu tíðar af sér í kjölfar mistaka og 48% sögðu gagnsærra starf skila þinginu meiri virðingu.