Íslendingar teknir með kókaín

mbl.is/Ásdís

Tveir íslenskir ríkisborgarar voru handteknir á flugvellinum í Melbourne í Ástralíu í gær vegna gruns um innflutning á þremur kílóum af kókaíni. Mennirnir eru í haldi lögreglu og hafa þeir mætt fyrir dómara.

Greint er frá þessu á ástralska fréttavefnum The Age. Þar kemur fram að mennirnir hafi verið ákærðir fyrir innflutning á fíkniefnum.

Fram kemur að aðalræðismaður Íslands í Ástralíu hafi verið viðstaddur í réttarsal í Melbourne í dag. Hvorugur mannanna óskaði eftir því að fá sig lausan gegn greiðslu tryggingar. Þeir verða því áfram í gæsluvarðhaldi og eiga að mæta aftur fyrir dómara í nóvember.

The Age greinir frá því að íslensk kona, sem starfi sem kennari, hafi boðist til að aðstoða sem túlkur. Ruth Parker, verjandi annars mannsins, segir að vitað sé um tvo túlka sem kunni íslensku á svæðinu en þeir hafi verið uppteknir. 

Saksóknarinn Ben Kerlin sagði í réttarsalnum að ekki væri búið að vigta kókaínið, en það væri vegna þess hvernig efnin voru falin. Ekki er nánar útskýrt hvar og hvernig efnin fundust. Hins vegar er talið að þau vegi um þrjú kíló. Þá segir Kerlin að efnin hafi verið send í greiningu og er von á niðurstöðu innan sex vikna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert