Leikskólanum lokað tímabundið

Leikskólinn 101.
Leikskólinn 101. mbl.is/Rósa Braga

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar segir að Leikskólanum 101 hafi verið lokað tímabundið á meðan rannsókn Barnaverndar Reykjavíkur á meintu harðræði starfsfólks við börn stendur yfir. Tekið er fram að við reglubundið eftirlit í leikskólanum á þessu ári hafi engar athugasemdir verið gerðar við aðbúnað barna.

Eftirfarandi yfirlýsing hefur borist frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar vegna málsins:

„Leikskólanum 101 hefur tímabundið verið lokað meðan á rannsókn Barnaverndar Reykjavíkur á meintu harðræði starfsfólks við börn stendur yfir. Var sú ákvörðun tekin af stjórnendum skólans. Þá hefur skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar málið til skoðunar. 

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, svo og Heilbrigðiseftirlit Reykjavikur, sinna lögbundnu eftirliti með sjálfstætt starfandi leikskólum í borginni. Við reglubundið eftirlit í Leikskólanum 101 á þessu ári hafa engar athugasemdir verið gerðar við aðbúnað barnanna. Foreldrakönnun sem gerð var á vegum sviðsins meðal forsjármanna barna í leikskólanum í vor gaf heldur ekki ástæðu til að athugasemda eða frekara eftirlits.

Skóla- og frístundasvið mun í samstarfi við forsjármenn barna í Leikskólanum 101 boða til fundar þar sem farið verður yfir tilefni rannsóknarinnar og leiðir til úrbóta. 

Foreldrar eða forsjármenn sem eiga eða hafa átt barn í leikskólanum geta leitað til Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar eða Barnaverndar Reykjavíkur vilji þeir koma á framfæri athugasemdum eða telji sig þurfa á sérfræðiaðstoð að halda.“

Ásakanirnar alvarlegar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert