Metnir hæfir í forvali á hönnun nýs spítala

Nýr Landspítali
Nýr Landspítali

Ríkiskaup hafa tilkynnt niðurstöðu forvals um hönnun bygginga Nýs Landspítala við Hringbraut. Forvalið var tvískipt, annars vegar var um að ræða forval fyrir hönnun sjúkrahótels og bílastæðahúss og hins vegar fyrir hönnun meðferðarkjarna og rannsóknarhúss.

Þrír metnir hæfir til að hanna meðferðarkjarna og rannsóknarhús

Þrír umsækjendur voru metnir hæfir til að bjóða í hönnun meðferðarkjarna og rannsóknarhúss. Í fyrsta lagi hópur sem verkfræðistofan Mannvit fer fyrir en í honum eru einnig THG arkitektar ehf, Arkís arkitektar ehf og danska ráðgjafafyrirtækið Ramböll til ráðgjafar.

Í öðru lagi  hópur sem  Verkís hf. fer fyrir en í honum eru einnig TBL arkitektar og norsku fyrirtækin COWI AS og Link arkitekter til ráðgjafar.

Í þriðja lagi hópur sem ber nafnið Corpus 2 en að honum standa arkitektur.is ehf., Hornsteinar arkitektar ehf, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf. og VSÓ ráðgjöf ehf.  Ráðgjafar þeirra eru breska ráðgjafafyrirtækið Arup, norska arkitektastofan Reinertsen AS og hollenska fyrirtækið Djga.

Þessir þrír hópar hafa verið metnir hæfir til að taka þátt í lokuðum aðskildum útboðum fyrir 58.500 m2 meðferðarkjarna og um 14.000 m2 rannsóknarhús við Landspítalann.

Fimm metnir hæfir til að hanna sjúkrahótel og bílastæðahús

Þá voru fimm umsækjendur metnir hæfir til að bjóða í hönnun sjúkrahótels og bílastæðahúss, en þeir eru eftirfarandi: í fyrsta lagi hópur sem Hnit verkfræðistofa hf. fer fyrir, en í því teymi eru einnig Studio Granda ehf. og Verkhönnun ehf., í öðru lagi Mannvit hf. í samvinnu við THG arkitekta ehf. og Arkís ehf., í þriðja lagi Verkís hf. í samstarfi við TBL arkitekta, í fjórða lagi Corpus 2 en í þeim hópi eru arkitetur.is, Hornsteinar arkitektar ehf., Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf og VSÓ ráðgjöf ehf. og í fimmta lagi KOS en í þeim hópi eru Gláma Kím arkitektar, Yrki arkitektar ehf., Conís ehf. og Raftákn. 

Þessir fimm hópar hafa verið metnir hæfir til að taka þátt í lokuðum aðskildum útboðum fyrir um 21.300 m2 bílastæðahús og um 4.000 m² sjúkrahótel við Landspítalann.

Fimm hópar sóttu um að bjóða í hönnun meðferðarkjarna og rannsóknarhúss og sex hópar sóttu um að bjóða í hönnun bílastæðahúss og sjúkrahótels. 

Öllum þátttakendum hefur verið send tilkynning með niðustöðunum og rökstuðningi forvalsnefndar. Niðurstöður forvalsins skulu gilda í 9 mánuði nú þegar þær liggja fyrir. Ekki er gefin einkunn fyrir hæfni og reynslu og því mun tilboðsfjárhæð hafa 100% vægi í hönnunarútboðunum.

Þeir fyrirvarar voru gerðir strax í upphafi að útboð á hönnun muni þá aðeins fara fram að verkefninu verði tryggð fjármögnun á fjárlögum, segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert