33 þúsund gegn hvalveiðum

Sjálfboðaliðar SEEDS samtakanna afhentu í dag síðustu póstkort sumarsins sem ferðamenn og Íslendingar hafa undirritað með áskorun til stjórnvalda um að hætta hvalveiðum. Voru þau afhent Þóri Hrafnssyni, upplýsingafulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Sjálfboðaliðarnir standa að söfnuninni f.h. Hvalaskoðunarsamtaka Íslands og IFAW samtakanna og hafa um sautján þúsund undirskriftir safnast á póstkort í sumar. Söfnunin var einnig gerði í fyrrasumar og söfnuðust þá 16 þúsund póstkort, eða alls 33 þúsund. Samtals hafa tæplega þrjú þúsund Íslendíngar ritað nöfn sín við áskorunina.

„Þetta er tvöföld heitstrenging; fólk lofar því að borða ekki hvalkjöt og lýsir því yfir að það vilji að hvalveiðum við Ísland verði hætt,“ segir Sigursteinn Másson, fulltrúi IFAW. Hann kveður sjálfboðaliðana koma hvaðanæva að úr heiminum; frá Frakklandi, Þýskalandi, Japan, Taívan, Tékklandi, Bretlandi og Ítalíu, og segir þá hafa haft gaman af því að komast í kynni við svo margt fólk.

Sigursteinn segir Íslendinga hafa verið talsvert viljugri til að skrifa undir nú í sumar heldur en í fyrra, en í ár skrifuðu 1715 Íslendingar undir miðað við þúsund í fyrra.

Hinn tvítugi Yosuke Kobayashi frá Japan er einn þeirra sem tekið hafa þátt í að safna undirskriftum. Við afhendingu þeirra sagði hann Ísland vera ólíkt hvalveiðiríkinu Japan að því leiti að hér væri augljós jákvæður valkostur í stað hvalveiða; hvalaskoðun. Í Japan væri hins vegar ekkert slíkt og þar þyrfti að finna slíkan valkost.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert