Mun ekki skorast undan ábyrgð

Leikskólinn 101.
Leikskólinn 101. mbl.is/Rósa Braga

„Fyrsta skylda allra þeirra sem vinna með börnum er að tryggja öryggi þeirra og velferð. Svo virðist sem framkomin gögn gefi tilefni til að ætla að í einhverjum tilfellum hafi ekki verið komið fram við börnin af þeirri nærgætni og alúð sem þau eiga skilið. Þetta hafði ég ekki nokkra vitneskju um og harma ég eindregið ef það hefur gerst.“

Þetta segir Hulda Linda Stefánsdóttir, leikskólastjóri Leikskólans 101, í tilkynningu sem send hefur verið á fjölmiðla vegna umfjöllunar um skólann í fjölmiðlum að undanförnu. Hún segir að henni hafi verið greint frá því í dag að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi óskað eftir lögreglurannsókn á því hvort starfsmenn leikskólans hefðu brotið gegn barnaverndarlögum. 

„Það er mín einlæga von að ekki hafi verið um brot að ræða, en mikilvægt er að fá úr því skorið og að réttir aðilar fari yfir allan vitnisburð og gögn,“ segir Hulda Linda. „Að sjálfsögðu er það skylda allra þeirra sem verða vitni að slíku að upplýsa um það strax, annað hvort með því að tilkynna um það til stjórnenda leikskólans eða til yfirvalda.“

Hún ítrekar að hún hafi ekki séð myndbönd sem tekin voru á leikskólanum „en sýni þau óviðeigandi framkomu við börn þá er það auðvitað á ábyrgð mína sem leikskólastjóri og ég mun ekki víkjast undan henni. Leikskólinn verður lokaður enn um sinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert