Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun hefja rannsókn á meintu harðræði starfsmanna ungbarnaleikskólans 101 gegn börnum. Þetta staðfesta Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, og Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Friðrik Smári segir að lögreglan bíði nú eftir að fá gögn og þá mun formleg rannsókn hefjast.
Tveir sumarstarfsmenn höfðu samband við Barnavernd Reykjavíkur á þriðjudag þar sem þeir greindu frá meintu harðræði. Þeir afhentu m.a. myndskeið sem þeir höfðu tekið upp á síma.
Halldóra segir í samtali við mbl.is að eitt myndskeiðanna, auk viðtala sem hafa verið tekin í tengslum við rannsókn málsins undanfarna daga, hafi ráðið úrslitum um framhald málsins, þ.e. að senda það til lögreglunnar.
Í bréfi sem foreldrar barnanna fengu sent frá Barnavernd Reykjavíkur, og mbl.is hefur undir höndum, segir: „að tekin hefur verið ákvörðun um að óska lögreglurannsóknar á því hvort brotið hafi verið gegn 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 1 sömu laga, gagnvart börnum á ungbarnaleikskólanum 101 Reykjavík af hálfu starfsmanna leikskólans.“
Í 99. gr. laganna segir: „Hver sem beitir barn refsingum, hótunum eða ógnunum og ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Ef maður hvetur barn til lögbrota, lauslætis, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða leiðir það með öðrum hætti á glapstigu þá varðar það sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.
Hver sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“
Líkt og fram hefur komið, ákváðu stjórnendur leikskólans að loka honum á meðan málið er til rannsóknar. Þá voru tveir starfsmenn sendir í leyfi.
Samkvæmt heimildum mbl.is eru starfsmenn leikskólans m.a. sakaðir um að hafa flengt börn, tekið harkalega í hendur og axlir þeirra, sett þau inn í lokuð rými, bundið þau við stóla og haldið frá þeim mat.
Leikskólinn er ungbarnaleikskóli þar sem dvelur 31 barn. Börnin eru frá 9-18 mánaða gömul. Starfsmenn leikskólans eru níu talsins.