Hafþór Júlíus Björnsson varð í dag í 3. sæti í keppninni Sterkasti maður heims, sem haldin var í Kína. Er þetta í annað skiptið í röð sem Hafþór Júlíus nær þriðja sætinu í keppninni.
Hann var í harðri baráttu alla keppnina við sterkustu mennina, leiddi keppnina eftir tvær greinar en datt niður í 4. sæti í næstsíðustu grein. Hann gaf svo allt í botn í Atlassteininum, vann þá grein og náði í heildina 3. sætinu.
Alls vann Hafþór Júlíus tvær greinar af sex í úrslitunum. Þá hlaut hann titilinn Konungur steinanna.
Sigurvegari keppninnar var Brian Shaw frá Bandaríkjunum, sem einnig sigraði árið 2011, en í öðru sæti var Litháinn Zydrunas Zavickas, sem fór með sigur af hólmi í fyrra.