Funda með foreldrum barnanna í dag

Leikskólinn 101.
Leikskólinn 101. Mbl.is/Rósa Braga

„Við vinnum að því dag og nótt að aðstoða foreldrana við að finna pláss fyrir börnin,“ segir Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Ungbarnaleikskólanum 101 í vesturbæ Reykjavíkur var lokað í síðustu viku í kjölfar ásakana um meint harðræði starfsmanna í garð barna á leikskólanum. Þrjátíu og eitt barn átti pláss á leikskólanum þegar honum var lokað og því ljóst að margir foreldrar þurftu að finna daggæslu fyrir börn sín með afar litlum fyrirvara. 

Síðdegis mun starfsfólk skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar funda með foreldrum barnanna þar sem farið verður yfir stöðu málsins. Það verða mögulegar lausnir varðandi dagvistun barnanna ræddar. 

Benda foreldrunum á dagforeldra

Börnin sem dvöldu á Leikskólanum 101 voru á aldrinum 9 til 18 mánaða. Enginn ungbarnaleikskóli er rekinn á vegum Reykjavíkurborgar og því hefur foreldrum verið bent á laus pláss hjá dagforeldrum í borginni. „Við reynum allt sem við getum til að hjálpa foreldrum að finna framtíðarúrræði fyrir börnin,“ sagði Ragnar í samtali við mbl.is. „Ég býst við því að einhverjir hafi lent í vandræðum með að finna pláss.“

Fyrir helgi staðfestu Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, og Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu myndi hefja rannsókn á meintu harðræði starfsmanna ungbarnaleikskólans 101 gegn börnum. Ekki er ljóst hversu lengi Leikskólinn 101 verður lokaður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert