Hægt væri að stöðva allar framkvæmdir

Hart hefur verið deilt um lagningu Álftanesvegar um Gálgahraun, en …
Hart hefur verið deilt um lagningu Álftanesvegar um Gálgahraun, en framkvæmdir við veginn hófust nýverið. mbl.is/Eggert

Vegagerðin segir að ef fallist hefði verið á kröfu um að fresta framkvæmdum við nýjan Álftanesveg vegna dómsmáls, væri komin upp sú staða að hægt væri að kæra fyrir dómstólum hvaða framkvæmd sem er og þannig stöðva allar framkvæmir væri til þess vilji einhverra.

Á vefsvæði Vegagerðarinnar er fjallað um framkvæmdir við Álftanesveg en þær eru hafnar. „Nýr Álftanesvegur hefur lengi verið í undirbúningi og var hafist handa að hluta til árið 2009 en stærri hluta verksins frestað vegna efnahagsástandsins. Nú er komið að því að ljúka því.“

Þá segir að ítrekað hafi verið látið reyna á gildi bæði mats á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfis en niðurstaðan ætíð orðið sú að ekkert væri því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir.

„Kæra fyrir dómstólum á hendur vegamálastjóra breytir því ekki. Þar sem á gildi mats á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfis hefur margsinnis reynt og niðurstaða til þess bærra stjórnvalda liggur fyrir er ólíklegt að dómstólar komist að annarri niðurstöðu. Dómsmál tekur langan tíma og ef farið væri að kröfunni um að fresta framkvæmdum vegna dómsmálsins væri komin upp sú staða að hægt væri að kæra fyrir dómstólum hvaða framkvæmd sem er og þannig stöðva allar framkvæmir væri til þess vilji einhverra.“

Vegagerðin segir ennfremur að eftir að tilboð hafi verið opnuð sé komin skuldbinding af hálfu verkkaupa að ganga að lægsta tilboði sem stenst kröfur. Þannig að þótt ekki hefði verið skrifað undir samning um verkframkvæmd sé Vegagerðin bundin af því að taka lægsta gildandi tilboði hverju sinni.

„Þannig getur Vegagerðin ekki hætt við útboð eða frestað framkvæmdum þegar búið er að opna tilboðin nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Nýlegur dómur Hæstaréttar kveður á um skaðabótaskyldu ef hætt er við útboð jafnvel þótt tilboði hafi ekki verið tekið. Því telur Vegagerðin augljóst að verði frekari frestanir eða hætt við framkvæmdina skapist skaðabótaskylda.“

Nýi Álftanesvegurinn er umdeildur.
Nýi Álftanesvegurinn er umdeildur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert