Spáð er norðanhríð á föstudaginn með slyddu eða snjókomu um norðanvert landið. Að sögn Hrafns Guðmundssonar, veðurfræðings á Veðurstofu, koma lægðir á færibandi næstu daga og er ekkert nema úrkomu að sjá í kortunum fram yfir helgi.
Mjög vætusamt hefur verið á landinu síðustu daga og segir Hrafn ekkert lát á rigningunni. Lægðirnar komi „á færibandi, eins langt og við sjáum“. Hann segir að þegar líður á vikuna kólni í veðri.
„Við erum að spá slæmu veðri á föstudaginn. Þetta er norðanhret,“ segir Hrafn. Hann segir að veðrinu fylgi slydda eða snjókoma í fjöllum.
Þegar lægðir streyma til landsins á haustin er minni hætta á næturfrosti. Hrafn segir að það geti orðið næturfrost milli lægða, t.d. um helgina. Það sé spáð frosti í innsveitum norðanlands á laugardag.
Nánar á veðurvef mbl.is