Björgunarsveitir tilbúnar til aðstoðar

Landsbjörg er reiðubúin að leggja lið við smalamennsku að sögn …
Landsbjörg er reiðubúin að leggja lið við smalamennsku að sögn formanns Bændasamtakanna. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að bændur séu vel á verði vegna spár um illviðri um komandi helgi. Bændur hafi víða tekið ákvörðun um að flýta göngum og þau mál séu í góðum farvegi.

Hann hvetur þá sem eiga í erfiðleikum með að manna smalamennskur til að hafa samband við fulltrúa almannavarna á hverju svæði sem fyrst en björgunarsveitir eru tilbúnar til aðstoðar ef á þarf að halda. Þetta kemur fram í frétt frá Bændasamtökunum.

„Ég hef heyrt í mjög mörgum bændum og öðrum  sem að málum koma, um allt land. Það er mikilvægt að það komi fram að hlutirnir eru í mjög góðum farvegi. Heimamenn eru alls staðar að funda og taka stöðuna og þeir taka síðan ákvörðun um hvort eigi að fara af stað í smalamennsku, enda þeir best dómbærir á þörfina á hverjum stað. Skipulagning þessara mála er því í góðum málum,“ er haft eftir Sindra.

Sindri bendir á bændum á að hika ekki við að leita aðstoðar ef þörf er á.

„Ég hef rætt við Víði Reynisson, deildarstjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, og Hörð Má Harðarson, formann Landsbjargar. Ef bændur hafa áhyggjur af því að þeir geti ekki mannað smalamennsku er mjög mikilvægt að þeir láti vita af því sem fyrst. Landsbjörg er tilbúin að leggja lið við smalamennsku enda vilji björgunarsveitirnar  frekar koma og hjálpa til við forvarnir heldur en björgunarstörf. Víðir lagði jafnframt áherslu á að kæmi eitthvað upp á í smalamennsku ættu menn alls ekki að hika við að hafa strax samband í gegnum neyðarlínuna og leita aðstoðar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka