Ekki vitað hvað olli slysinu

Skapti Hallgrímsson

Ekki er hægt að álykta um ástæður flugslyss við Akureyri þann 5. ágúst samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja varðandi viðhald flugvélarinnar og þjálfunar áhafnar, samkvæmt upplýsingum frá Mýflugi. Flugfélagið hefur gengið frá samningi um kaup á nýrri flugvél í stað þeirrar sem fórst, samkvæmt tilkynningu.

„Ráðrúm hefur nú gefist til að leiða hugann að þáttum tengdum flugslysi TF-­‐MYX þann 5. ágúst síðastliðinn. Flugrekandi hefur, eðli málsins samkvæmt, takmarkaða möguleika til rannsóknar flugslysa. Í því fagi eru aðrir betri. Engu að síður eru ákveðnir þættir sem hægt er að leggja mat á.

Eftirfarandi er niðurstaða þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin: Þegar TF-­‐MYX fórst var viðhald vélarinnar samkvæmt áætlun og engin viðhaldsverk eða tæknileg atriði útistandandi. Áhöfnin var rétt þjálfuð og hæf til flugsins.

Flugvakt hafði verið stutt og nægur tími gefist til hvíldar fyrir hana. Veðuraðstæður voru hagstæðar og nægt eldsneyti hafði verið tekið til flugsins. Um ástæður slyssins er ekki hægt að álykta af framangreindu. Réttar niðurstöður fást trúlega ekki fyrr en rannsóknarnefnd samgönguslysa skilar endanlegri niðurstöðu rannsóknar sinnar.

Mýflug aðstoðar Rannsóknarnefndina eftir því sem hún telur að það geti orðið að gagni og vísum við spurningum er varða rannsóknina, til hennar,“ segir í tilkynningu.

Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, hefur undirritað samning um kaup á King Air B200 flugvél sem ætlað er að leysa TF-­‐MYX af hólmi. Flugvélin er smíðuð árið 1999 og búin bestu tækjum sem völ er á, samkvæmt fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert