Fólk beðið um að vara ferðamenn við

Ferðamálastofa beinir þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að upplýsa viðskiptavini sína um slæma veðurspá komandi helgar. Mikilvægt er að leita allra leiða til að fólk sé upplýst um þær aðstæður sem kunna að skapast, sérstaklega á hálendinu og fjallvegum.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is er slæm veðurspá fyrir föstudag og laugardag víða.

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að veður verði meinlaust frá þriðjudegi og út fimmtudag.

Spáin fyrir föstudag er eftirfarandi: „Breytileg átt 5-13 m/s fyrir hádegi og víða rigning. Gengur síðan í norðvestan 18-23 m/s NV-til á landinu með mikilli rigningu, en snjókoma ofan 200-300 metra yfir sjávarmáli. Norðvestan og vestan 15-23 á SV- og S-landi og rigning. Mun hægari vindur á A-verðu landinu og úrkomulítið. Hiti frá 1 stigi síðdegis NV-til, upp í 12 stig austast.

Á laugardag: Norðan og norðvestan 15-23 m/s fyrir hádegi, en hægari vindur NA-til. Talsverð eða mikil rigning  N-til á landinu, en snjókoma í meira en 200-300 metra hæð yfir sjó. Úrkomulítið S-lands. Norðvestan 13-18 NA-til síðdegis með rigningu á láglendi, annars slyddu eða snjókomu, en dregur úr vindi og úrkomu V-til. Hiti 1 til 9 stig, kaldast í innsveitum N-til og frystir þar um nóttina.“

Veðurstofan segir að spár um hitastig á föstudaginn og hvar veðrið verði verst muni skýrast betur þegar nær dregur og geti enn þróast á ýmsa vegu. „Um er að ræða óveðurslægð sem spáð er að dýpki mjög hratt en óvissa í braut lægðarinnar veldur óvissu um það í hvaða landshluta veðrið verður verst. Ennþá er full ástæða fyrir íbúa á N-verðu landinu að vera við öllu búnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka