Hugsanlega tvö kynferðisbrot

Meðferðarheimilið Stuðlar
Meðferðarheimilið Stuðlar Kristinn Ingvarsson

Hugsanlegt er að hin meintu kynferðisbrot á Stuðlum hafi gerst með nokkurra klukkustunda millibili og um tvö aðskilin mál sé því að ræða. Þetta segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

Hann segir málið vera afar óljóst og flókið, en ljóst sé að þarna hafi einhver samskipti átt sér stað sem leiddu til kynferðislegs samneytis. „Málið fer í rannsókn hjá lögreglu undir formerkjunum „grunur um kynferðisbrot.“ Við vitum að þetta er ekki þannig vaxið að tveir unglingar ráðast á annan og nauðga honum, málið er mun flóknara en það. Það liggur ekki fyrir að þeir hafi á nokkrum tímapunkti verið staddir á sama tíma í herberginu.“

Hann segir málið hafa fengið verulega á alla þá sem að því komu. „Okkar viðbrögð eru fyrst og fremst að veita öllum börnunum sem þarna koma við sögu viðeigandi hjálp. Þetta er mikið áfall fyrir alla þessa ungu drengi.“

Engar vísbendingar um skort á eftirliti

Málin eru nú til rannsóknar hjá lögreglu og barnavernd. „Við reynum að grafast fyrir um það hvernig þetta gat gerst inni í aðstæðum sem hannaðar eru með það fyrir augum að tryggja öryggi þessara barna.“

Bragi segir að við fyrstu athuganir hafi ekkert komið fram sem gefi tilefni til þess að ætla að skort hafi á eftirlit, sá möguleiki hafi hins vegar ekki verið útilokaður og er það eitt af því sem rannsakað verður.

Á Stuðlum eru fimm herbergi ásamt sameiginlegu rými. Í sameiginlega rýminu eru eftirlitsmyndavélar og vaktherbergi. Í herbergjunum eru ekki myndavélar vegna persónuverndarsjónarmiða, en óheimilt er að loka dyrunum eða læsa. Börnin mega þó halla þeim til þess að fá næði. „Það er ekkert launungarmál að ekki er hægt að fylgjast með öllum þeim sem þarna dvelja. Krakkarnir verða að fá að eiga samskipti inni á sínum herbergjum, það er ekki hægt að loka þau frá umheiminum. Alltaf er reynt að fylgjast með, en við þessar aðstæður getur ýmislegt komið upp á.“

Bragi áréttar að málið sé einsdæmi í sögu sextán ára starfsemi Stuðla. „Gæta þarf þess að hrapa ekki að þeirri niðurstöðu að hætta sé í því fólgin að vista barn á lokaðri deild vegna hugsanlegs ofbeldis.“

Úttekt verður gerð á starfsemi Stuðla

Barnaverndarstofa hefur óskað eftir því að velferðarráðuneytið vinni úttekt á aðdraganda málsins. Með nýlegum lagabreytingum var eftirlitshlutverkið fært frá Barnaverndarstofu til velferðarráðuneytisins og skal ráðuneytið samkvæmt því kalla til óháðan aðila sem gerir úttekt á aðdraganda atburðanna, eðli þeirra og viðbrögðum sem eiga að fylgja í kjölfarið.

Markmiðið með úttektinni er kanna hvað megi betur fara í framtíðinni til þess að tryggja öryggi barnanna og þá hvort úrbóta sé þörf ásamt því að kanna hvort einhver mannleg mistök hafi átt sér stað. Ekki er búið að ganga formlega frá ráðningu, en haft var samband við aðila sem sinnti starfinu hjá barnaverndarstofu þegar eftirlitshlutverkið var í þeirra höndum.

Frétt mbl.is: Grunur um kynferðisbrot á Stuðlum

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert