Íhuga að smala ferðamönnum til byggða

Fjölmargir ferðamenn eru nú á hálendinu að sögn lögreglu. Brýnt …
Fjölmargir ferðamenn eru nú á hálendinu að sögn lögreglu. Brýnt er að koma skilaboðum til þeirra vegna óveðursins sem spáð er á svæðinu nk. föstudag og laugardag. mbl.is/RAX

Fjölmargir ferðamenn eru nú staddir á miðhálendinu og vinnur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtarfi við önnur lögregluembætti og Landsbjörg, hvernig efla megi eftirlit á hálendinu vegna slæms veðurútlits fyrir komandi helgi.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík verður hálendisvakt björgunarsveita væntanlega efld, en almannavarnir funda nú með forsvarsmönnum Landsbjargar þar sem farið er yfir stöðuna. Haft verður samband við fjallaskála og tilmælum verður beint til þeirra sem vinna í ferðaþjónustu að aðvara ferðamenn.

Væntanlega verður gripið til þess að ráðs að aka helstu hálendisvegi og þá er ekki loku fyrir það skotið að flogið verði yfir svæðið. 

Margir ferðamenn eru nú gangandi, hjólandi eða akandi um hálendið. Ekki er vitað um fjölda þeirra sem þar eru. Lögreglan á Húsavík bendir á að allir hálendisvegir séu enn opnir. Nú sé verið að skoða hvort og hvernig sé best að smala ferðamönnunum til byggða. 

Það kemur m.a. til greina að loka helstu innkeyrslum á fjallvegi. 

Veðurstofan hafði samband við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í gær vegna slæms veðurútlits fyrir föstudag og laugardag á norðanverðu landinu. Veðurspáin er að mörgu leyti lík veðrinu frá því í fyrra í byrjun september. Það hafði í för með sér mikinn fjárskaða á Norðurlandi.

Í ljósi spárinnar var haft samband við lögreglustjórana frá Blönduósi austur á Seyðisfjörð vegna veðurútlitsins og í framhaldinu voru haldnir samráðs- og upplýsingafundir með almannavarnanefndum, sveitarstjórum, bændum og fleirum. Ákveðið var að fylgjast áfram með veðurspánni og hefja smölun eftir atvikum.

Samkvæmt veðurspá sem gerð var í morgun fyrir föstudag, gengur í norðvestan 18-23 m/s NV-til á landinu með mikilli rigningu, en snjókoma ofan 200-300 metra yfir sjávarmáli. Norðvestan og vestan 15-23 á SV- og S-landi og rigning. Mun hægari vindur á A-verðu landinu og úrkomulítið. Hiti frá 1 stigi síðdegis NV-til, upp í 12 stig austast.
Á laugardaginn er spáð norðan og norðvestan 15-23 m/s fyrir hádegi, en hægari vindur NA-til. Talsverð eða mikil rigning N-til á landinu, en snjókoma í meira en 200-300 metra hæð yfir sjó. Úrkomulítið S-lands. Norðvestan 13-18 NA-til síðdegis með rigningu á láglendi, annars slyddu eða snjókomu, en dregur úr vindi og úrkomu V-til. Hiti 1 til 9 stig, kaldast í innsveitun N-til og frystir þar um nóttina.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra beinir því sérstaklega til ferðaþjónustuaðila að þeir upplýsi viðskipavini sína um veðurspár og ráðleggi þeim frá ferðalögum á norðanvert hálendið um helgina. Miðað við veðurspár er líklegt að það snjói víða á fjallvegi og því sérstaklega mikilvægt að upplýsingar berist til ferðamanna sem eingöngu eru búnir bifreiðum til sumaraksturs. Þeir sem hyggja á ferðalög eru hvattir til að fylgjast vel með veðurútliti á www.vedur.is og færð á vegum www.vegagerdin.is  áður en haldið er af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert