„Við tökum enga áhættu“

Smalað verður á afréttum á öllu Norðurlandi á morgun. Þetta …
Smalað verður á afréttum á öllu Norðurlandi á morgun. Þetta er um hálfum mánuði fyrr en áætlað var. mbl.is/Atli Vigfússon

„Við tökum enga áhættu. Við fengum nóg í fyrra,“ segir Ómar Sigtryggsson, fjallskilastjóri og bóndi á Litlu Reykjum í S-Þingeyjarsýslu, en hann er að undirbúa göngur á Reykjaheiði. Bændur um allt Norðurland ætla að smala áður en óveðrið skellur á. Gangnamenn í Húnavatnssýslu fara af stað í dag.

Veðurstofan hafði samband við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í gær vegna slæms veðurútlits fyrir föstudag og laugardag á norðanverðu landinu. Veðurspáin er að mörgu leyti lík veðrinu frá því í fyrra í byrjun september. Það hafði í för með sér mikinn fjárskaða á Norðurlandi.

Í ljósi spárinnar var haft samband við lögreglustjórana frá Blönduósi austur á Seyðisfjörð vegna veðurútlitsins og í framhaldinu voru haldnir samráðs- og upplýsingafundir með almannavarnanefndum, sveitarstjórum, bændum og fleirum. Ákveðið var að fylgjast áfram með veðurspánni og hefja smölun eftir atvikum.

Þingeyingar leggja af stað á morgun

Mikill fjárskaði varð á Þeistareykjasvæðinu í fyrra. Böðvar Baldursson, fjallskilastjóri og bóndi í Heiðargarði í Aðaldal, segir að menn fari af stað í fyrramálið til að smala á Þeistareykjum. Hann vonast eftir að nægur mannskapur fáist til leitar.

Ómar Sigtryggsson á Litlu-Reykjum segir að réttað verði í Hraunsrétt kl. 14 á fimmtudag, þegar búið verður að smala Reykjaheiði.

Hörður Guðmundsson, fjallskilastjóri og bóndi á Svertingsstöðum í Eyjafirði, segir að gangnamenn leggi af stað á morgun til að smala svæðið austan Eyjafjarðarár. Hann segir að það ráðist af veðri og aðstæðum hvenær verður réttað. Menn stefni að því að ná að reka féð niður fyrir girðingu áður en veðrið skellur á.

Orri Óttarsson, gangnaforingi og bóndi á Garðsá í Eyjafirði, segir að smölun hefjist í gamla Öngulsstaðahreppnum á morgun. Hann reiknar ekki með að farið verði á allt svæðið en menn reyni að reka féð niður að bæjum áður en veðrið skellur á. Hann reiknar með að réttað verði á föstudaginn. Orri segir ekki víst að menn nái saman öllum mannskap sem venjulega fer í leitir. „Þetta er bara neyðaraðgerð sem menn verða að fara í,“ segir Orri.

Þiggjum alla hjálp

Veðurstofan spáir því að veðrið verði einna verst á Norðvesturlandi og á Ströndum. Sveitarstjórn Húnavatnshrepps boðaði til aukafundar fyrir hádegi í dag.

Þóra Sverrisdóttir, oddviti Húnavatnahrepps, segir að gangnamenn leggi af stað til leitar í dag og smalað verði á miðvikudag og fimmtudag á Grímstungu- og Haukagilsheiði, Auðkúluheiði og á afrétti Bólstaðarhlíðarhrepps, en um 30 þúsund fjár eru á þessu svæði.

„Ég á ekki von á að við náum að smala allt svæðið enda er svæðið stórt. Við verðum að forgangsraða. Öll hjálp sem er í boð er vel þegin. Veðrið kemur úr mjög slæmri átt og það er mikil úrkoma og kuldi. Við verðum því að bregðast við,“ segir Þóra.

Ferðaþjónustan láti ferðamenn vita

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra beinir því sérstaklega til ferðaþjónustuaðila að þeir upplýsi viðskiptavini sína um veðurspár og ráðleggi þeim frá ferðalögum á norðanvert hálendið um helgina. Miðað við veðurspár er líklegt að það snjói víða á fjallvegi og því sérstaklega mikilvægt að upplýsingar berist til ferðamanna sem eingöngu eru búnir bifreiðum til sumaraksturs. Þeir sem hyggja á ferðalög eru hvattir til að fylgjast vel með veðurútliti á www.vedur.is og færð á vegum www.vegagerdin.is  áður en haldið er af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka