Foreldrar vilja ekki senda börnin aftur

Leikskólinn 101.
Leikskólinn 101. Rósa Braga

„Þetta er gríðarlega viðamikið mál og lagðar voru fram athugasemdir um mjög marga þætti í starfsemi leikskólans, allt frá umsýslu með mat að framkomu við börn. Þarna er fullt af þáttum sem ekki eru saknæmir, en aðrir sem eru það og þess vegna óskuðum við lögreglurannsóknar,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.

Hún segir Þyri Steingrímsdóttur, lögmann Huldu Lindu Stefánsdóttur, leikskólastjóra 101 leikskóla, hafa tekið orð sín úr samhengi þegar hún sagði Halldóru hafa greint frá því á foreldrafundi að ekki væri litið svo á að glæpur hefði verið framinn.

Barnaverndaryfirvöld ganga ekki inn í starfsemina

Reykjavíkurborg boðaði síðdegis í gær til fundar með foreldrum barna sem vistuð voru á ungbarnaleikskólanum 101. Þar fór Halldóra, ásamt Ragnari Þorsteinssyni, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, yfir málið ásamt foreldrum. Á fundinum gagnrýndi Þyri barnaverndaryfirvöld og Reykjavíkurborg fyrir úrræðaleysi þar sem hún telur að hægt væri að opna leikskólann undir eftirliti.

Halldóra segir það ekki vera skyldu barnaverndaryfirvalda að ganga inn í einkafyrirtæki eða skóla, þar sem upp koma atvik tengd börnum. „Við göngum ekki þar inn með úrræði eins og að setja upp eftirlitsaðila til þess að gæta að starfseminni. Við könnum mál og komum með tillögur. Við getum ekki lagt til starfsfólk til þess að tryggja að starfsemi haldist gangandi á leikskóla,“ segir Halldóra.

Á fundinum var staðfest að málið væri nú rannsakað af lögreglu og rannsóknarhagsmunir leyfðu því ekki að farið yrði nákvæmlega yfir einstök atriði málsins.

Eitt foreldri samþykkt að senda barnið aftur í leikskólann

Þyri tjáði fundinum að eigandi skólans hefði ákveðið að opna hann nk. fimmtudag. Hún sagði að tveir starfsmenn hefðu verið sendir í leyfi á meðan rannsókn stendur yfir og því væri ekkert að vanbúnaði að opna skólann til þess að leysa úr dagvistunarvandræðum foreldra.

Gerð var óformleg könnun um vilja foreldra til að senda börnin aftur í skólann með handauppréttingu og var eitt foreldri því samþykkt.

Börn af leikskólanum munu ekki njóta forgangs umfram önnur börn inn á aðra leikskóla borgarinnar og er það á ábyrgð foreldra að finna þeim annað pláss á leikskóla eða hjá dagforeldri. Stefnt er að því að bjóða börnum sem verða tveggja ára á árinu leikskólapláss auk þeirra barna sem hafa skilgreindan forgang samkvæmt reglum um leikskóla.

Fréttatilkynning Reykjavíkurborgar:

Fjölmenni var á fundi sem Reykjavíkurborg boðaði til síðdegis í gær með foreldrum barna sem áttu börn í vistun á ungbarnaleikskólanum 101. Fundurinn var haldinn í Vesturgarði, þjónustumiðstöð Vesturbæjar.

Fundarstjóri var Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Halldóra Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur fór yfir málið og reifaði þær ásakanir sem bornar hafa verið fram á hendur leikskólanum og starfsmönnum hans. Hún staðfesti að málið væri nú rannsakað af lögreglunni og rannsóknarhagsmunir leyfðu ekki að farið væri nákvæmlega yfir einstök atriði málsins. Halldóra svaraði síðan fjölmörgum spurningum foreldra eftir bestu getu. Hún bað foreldra að koma umkvörtunum sínum ef einhverjar væru til barnaverndar.

Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknarþjónustu skóla- og frístundasviðs, fór þvínæst yfir eftirlitshlutverk Reykjavíkurborgar með sjálfstætt starfandi leikskólum, dagforeldrum og borgarreknum leikskólum. Hún fór einnig yfir foreldrakannanir og það hvernig e.t.v. mætti lesa úr þeim þætti sem betur mættu fara í leikskólahaldinu þótt heildarniðurstaðan sýndi almenna ánægju með starfið.

Ragnar ítrekaði að eftirlit borgarinnar hefði verið samkvæmt lögum og reglugerð og nýleg foreldrakönnun hefði sýnt ánægju langflestra foreldra með ungbarnaleikskólann 101. Því hefði þetta mál komið mjög á óvart.

Foreldrar spurðu hvort ekki mætti koma upp öryggismyndavélum í leikskólum til að tryggja öryggi barna. Því var til svarað að persónuverndarsjónarmið kæmu í veg fyrir slíkt eftirlit. Ragnar sagði að besta tryggingin fyrir góðu starfi í leikskólum væri að auka hlut fagfólks í starfinu, efla samstarf þeirra og bæta skólabrag. Samkvæmt lögum á hlutfall fagmenntaðra starfsmanna í leikskólum að vera tveir þriðju hlutar starfsfólk.

Spurt var um hvers vegna Reykjavíkurborg hefði þá ekki tryggt að fleira fagfólk ynni hjá skólanum en þar hefði aðeins verið einn starfsmaður með leikskólaréttindi. Ragnar sagði að erfitt væri að fullmanna leikskólana með starfsfólki með réttindi. Það vandamál væri útbreitt í leikskólarekstri borgarinnar og víða um land.

Þyri Steingrímsdóttir, lögmaður eiganda ungbarnaleikskólans, bað um orðið og tjáði fundinum það að eigandi skólans hefði ákveðið að opna hann nk. fimmtudag og hefði tjáð skóla- og frístundasviði það bréfleiðis. Eigandi skólans hefði ákveðið að loka skólanum á meðan rannsókn stæði yfir þegar málið var á frumstigi. Nú væri búið að senda tvo starfsmenn í leyfi á meðan rannsókn stendur yfir og því væri ekkert að vanbúnaði að opna skólann til að leysa úr dagvistarvandræðum foreldra. Nokkur kurr fór um salinn vegna þessa.

Ragnar Þorsteinsson sagði að þetta væri ný staða í málinu. Hann hefði ekki kynnt sér efni bréfsins sem afhent hefði verið á fundinum. Það væri óopnað og því gæti hann ekkert tjáð sig um afstöðu sína fyrr en hann hefði farið yfir málið með lögfræðingum.

Þess var óskað á fundinum að gerð yrði óformleg könnun um hver vilji foreldra væri til þess að senda börnin sín aftur í skólann. Fundurinn samþykkti það með handauppréttingu. Ragnar spurði fundinn  hvort vilji foreldra væri til þess að senda börnin aftur í skólann nk. fimmtudag. Einn foreldri var því samþykkur.

Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri leikskólamála hjá skóla- og frístundasviði, fór yfir úrræði sem borgin hefði verið að skoða varðandi dagvistun barnanna sem voru vistuð í ungbarnaleikskólanum 101. Hún sagði stöðuna vera þrönga, sérstaklega í Vesturbæ og nærliggjandi hverfum, en möguleiki væri á lausum plássum hjá dagforeldrum og ungbarnaleikskólum í öðrum hverfum, t.d. Breiðholti, Árbæ, Grafarholti og fleiri hverfum. Ragnar sagði að upplýsingar væru fyrirliggjandi um að úrræði væru til fyrir öll börnin af ungbarnaleikskólanum 101 en þau úrræði væri ekki að finna í næsta nágrenni við heimili flestra. Hann sagði að Reykjavíkurborg leitaði allra leiða til að aðstoða foreldra í leit þeirra að dagvistunarúrræðum.  Foreldrar yrðu hins vegar sjálfir að finna lausnir sem hentuðu þeim. Reykjavíkurborg gæti ekki bókað dagvistunarpláss fyrir þá og hefði ekki umboð til þess. Það væri ábyrgð foreldra að finna út úr því sem hentaði börnum þeirra og þeim sjálfum best.

Fram kom hjá foreldrum að neyðarástand ríkti og því yrði borgin að taka af skarið og bjóða þeim forgangspláss á leikskólum borgarinnar. Börnin hefðu hugsanlega orðið fyrir ofbeldi í leikskólanum sínum sem hlyti að tryggja þeim ákveðinn forgang. Þeirri hugmynd var varpað fram að borgin myndi reyna að koma nokkrum börnum fyrir á nærliggjandi leikskólum. Ragnar sagði að fyrir lægi að stefna borgarinnar væri sú að bjóða þeim sem yrðu tveggja ára á árinu leikskólapláss auk barna sem hafa skilgreindan forgang samkvæmt reglum um leikskóla. Fáein börn af ungbarnaleikskólanum 101 eru að komast á þann aldur að eiga rétt á dagvistun í borgarreknum leikskólum.

Skóla- og frístundasvið er ennfremur að vinna með öðrum sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskólum að því að fjölga plássum sem foreldrar leikskólabarna í 101 gætu þá sótt um til að leysa bráðavanda þeirra

Að lokum fór Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturgarðs, yfir þau úrræði og aðstoð sem þjónustumiðstöðin gæti veitt foreldrum en hún heldur m.a. utan um lista yfir dagvistunarúrræði sem eru í boði í Vesturbæ. Sigþrúður benti fólki á að hafa samband við aðrar þjónustumiðstöðvar í hverfum borgarinnar þar sem fyrir liggja upplýsingar um laus dagvistunarúrræði hjá dagforeldrum.

Ragnar Þorsteinsson þakkaði viðstöddum fyrir málefnalega en ákveðna umræðu á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka