Réttað verður í Staðarrétt í Skagafirði í kvöld. Bændur í Staðar- og Seyluhreppum í Skagafirði héldu í göngur snemma í morgun og verður réttað strax í ljósi óveðursins sem spáð hefur verið.
Á húnvetnsku fréttasíðunni Feyki er haft eftir Bjarna Bragasyni sauðfjárbónda á Halldórsstöðum að ágætlega hafi gengið að manna göngur, þrátt fyrir lítinn fyrirvara.
Sjálfur lagði Bjarni upp með hesta á kerru um sjöleytið í morgun og lá leiðin á Vatnsskarð og Bólstaðarhlíð. „Svo smölum við hérna til baka og nýtum bílana og tæknina eins og hægt er,“ sagði hann í samtali við Feyki um leið og lagt var í hann.
Veður var nokkuð hagstætt í dag og má ætla að smalamennskan hafi gengið þokkalega. Fram kemur á Feyki að allar hendur séu vel þegnar til aðstoðar við réttarstörfin í kvöld.
Uppfært kl. 17:15: Í upphafi var stefnt að því að réttað yrði kl. 16 en það hefur tafist. Nú mun stefnt að því að réttir hefjist kl. 18, samkvæmt heimildum mbl.is