Hvassast verður á Vestfjörðum

"Um er að ræða óveðurslægð sem spáð er að dýpki mjög hratt en óvissa í braut lægðarinnar veldur óvissu um það í hvaða landshluta veðrið verður verst," segir í tilkynningu frá Veðurstofunni. Rax / Ragnar Axelsson

Vindstrengurinn sem spáð er að komi yfir norðanvert landið á föstudag hefur færst vestar. Nú telur Veðurstofan að hvassast verði á Vestfjörðum og eins er gert ráð fyrir hvassri NV-átt inn Breiðafjörð og Faxaflóa. Síðan er reiknað með að hvessi N- og NV-lands um nóttina.

Þessi spá er unnin skv. nýjustu spá Reiknimiðstöðvar evrópskra veðurstofa (ECMWF).

Dálitlar breytingar hafa orðið á þessari spá miðað við samskonar spár gærdagsins. Nú er reiknað með að vindstrengurinn færst enn vestar. Hvassast verður á Vestfjörðum og eins er gert ráð fyrir hvassri NV-átt inn Breiðafjörð og Faxaflóa og síðan hvessir N- og NV-lands um nóttina. Hins vegar mun snjókoman og slyddan falla áfram á Vestfjörðum og á NV-landi. Minni líkur á að slydda og snjókoma nái alla leið suður nema ef vera skyldi á fjallvegi SV- og V-lands.

Samkvæmt spánni sleppur NA-land ennþá sæmilega við versta veðrið þar sem áttin verður vestlægari og eins er útlit fyrir að úrkoman verði ekki eins mikil og á  NV-landi og Vestfjörðum.

„Ofantalin atriði munu skýrast betur þegar nær dregur og geta enn þróast á báða vegu, enda ber spám ekki algerlega saman um hver þróunin verður og litlar breytingar geta valdið miklum breytingum eftir landshlutum.

Um er að ræða óveðurslægð sem spáð er að dýpki mjög hratt en óvissa í braut lægðarinnar veldur óvissu um það í hvaða landshluta veðrið verður verst. Ennþá er full ástæða fyrir íbúa á norðan- og vestanverðu landinu að vera við öllu búnir,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka