Ólína hafði betur en Sigrún

Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi Alþingismaður og verðandi sviðsforseti við Háskólann á …
Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi Alþingismaður og verðandi sviðsforseti við Háskólann á Akureyri.

Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, fékk í dag flest atkvæði um stöðu sviðsforseta hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri. Ólína atti m.a. kappi við Sigrúnu Stefánsdóttur fyrrverandi dagskrárstjóra RÚV og hafði betur.

Fram kemur á vef vikublaðsins Akureyri að margir hafi talið Sigrúnu eiga góða möguleika á forsetastöðunni og því veki athygli að hún hafi dottið út strax í fyrri umferð kosningar. 

Í annarri umferð var kosið aftur á milli þeirra sem flest atkvæði fengu, en það voru Ólína og Rögnvaldur Ingþórsson. Ólína marði kosninguna með einu atkvæði, fékk 20 en Rögnvaldur 19. Nokkrir seðlar voru auðir, að því er fram kemur hjá Akureyri vikublaði.

Rektor Háskólans á Akureyri skipar formlega í stöðu sviðsstjóra og munu ekki vera fordæmi fyrir því að hunsa vilja starfsmanna eins og hann birtist í kosningum. Má því ætla að næsti starfsvettvangur Ólínu verði á Akureyri, en hún sat á Alþingi síðasta tímabil.

Ólína er þjóðfræðingur að mennt og hefur áður starfað sem háskólakennar og fræðimaður auk þess sem hún var eitt sinn skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert