Margir brugðust skjótt við

Úr safni.
Úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Ákveðið var að hefja skipulega smölun sauðfjár í þremur af sex fjallskiladeildum í Húnaþingi vestra í kjölfar slæmrar veðurspár fyrir komandi helgi og vegna tilmæla frá almannavarnanefnd Húnavatnssýslna.  Smölun hefur fengið vel í Hrútafirði og í Miðfirði, en erfiðlega í Víðidal. Margir brugðust skjótt við.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skúla Þórðarsyni, sveitarstjóra Húnaþings vestra.

Fram kemur, að í fjallskilastjórn Hrútafjarðar að austan hafi gangnamenn farið af stað í gær. Fé verður rekið til réttar við Hrútatungurétt í dag. Réttarstörf hefjast í Hrútatungurétt á morgun kl. 9. Smölun hefur gengið vel og göngur eru fullmannaðar.

Í fjallskilastjórn Miðfirðinga fóru gangnamenn af stað í gær. Fé verður rekið í safngirðingu og stóð í girðingu við Laxahvamm í dag. Stóð verður réttað í Miðfjarðarrétt á morgun kl. 9 og fé dregið sundur um kl. 13. Smölun hefur gengið vel og göngur eru nánast fullmannaðar.

Í fjallskilastjórn Víðdælinga fóru gangnamenn af stað í gær. Fé verður rekið norður fyrir heiðargirðingu í dag. Safn verður rekið til Víðidalstunguréttar á morgun og réttarstörf munu hefjast kl. 10 á föstudagsmorgun 30. ágúst. Smölun fjárins hefur gengið erfiðlega enda um langan vega að fara. Göngur eru fullmannaðar.

Í fjallskilastjórnum Hrútafjarðar að vestan, Vatnsness og Vesturhóps eru leitir ekki samræmdar sérstaklega en bændur munu almennt smala heimalönd sín fyrir helgi. Ekki er gert ráð fyrir að skilaréttir verði í Hvalsárrétt, Hamarsrétt né Þverárrétt.

Þakka fyrir veitta aðstoð

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra vill koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu sem brugðist hafa skjótt við og lagt fram aðstoð sína við gangnastörf á Húnvetnsku heiðunum. Íbúar sveitarfélagsins og aðrir sem tök hafa á eru hvattir til að veita búfjáreigendum aðstoð við réttarstörf næstu daga,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka